Ekki fyrsta flugslys fótboltans

Lið Chapecoense í síðustu viku.
Lið Chapecoense í síðustu viku. AFP

Eins og ítarlega hefur verið greint frá hér á mbl.is í morgun brotlenti flugvél með leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense í Kólumbíu seint í gærkvöldi. Þetta er fyrsta flugslysið á þessari öld sem tengist fótboltaheiminum með beinum hætti.

Frá árinu 1949 hafa átta flugslys tengst fótboltaheiminum með beinum hætti og fjölmargir látið lífið. Keir Radnedge, einn virtasti fótboltasérfræðingur Breta, hefur á heimasíðu sinni tekið saman þau flugslys sem tengjast liðum á leið í eða úr leikjum. 

1949 – Átján manna hópur Ítalíumeistara Tórínó var á meðal þeirra 31 sem lést eftir að flugvél þeirra hrapaði á heimleið eftir að hafa keppt við Benfica frá Portúgal.

1958 – Átta leikmenn Manchester United voru á meðal 23 látinna eftir að flugvél þeirra brotlenti eftir flugtak í München. Um var að ræða eldsneytisstopp á heimleið liðsins frá leik í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar við Rauðu stjörnuna frá Serbíu.

1961 – Átta leikmenn Green Cross frá Síle létust í flugslysi í Andes-fjöllunum. Flakið fannst ekki fyrr en tíu dögum eftir slysið.

1969 – Sautján leikmenn frá The Strongest, margfaldra meistrara frá Bólivíu, voru á meðal 78 fórnarlamba flugslyss í Viloco í Bólivíu. Liðið var á leið frá vináttuleik í Santa Cruz.

1979 – Fjórtán manns létust sem tengdust Pakhtakor Tshkent, sem lék í efstu deild Sovétríkjanna. Alls létust 178 í slysinu í Dniprodzerzhynsk í Úkraínu.

1987 – Sextán leikmenn frá liði Alianza frá Perú voru á meðal 43 fórnarlamba þegar flugvél þeirra hraðaði í sjóinn nærri Lima í Perú.

1993 – Átján leikmenn landsliðs Zambíu voru á meðal 30 manns sem fórust þegar flugvél þeirra hrapaði í Gabon. Liðið var á leið í landsleik gegn Senegal í undankeppni HM.

2016 – Flugslysið í Kólumbíu. Tala látinna er sögð að minnsta kosti 75 en liðið var á leið í viðureign sína við Atlético Nacional.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert