Reyndasti maður Chapecoense hættur

Hópur stuðningsmanna Chapecoense.
Hópur stuðningsmanna Chapecoense. AFP

Reyndasti leikmaður brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense tilkynnti í dag að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna en hann fór ekki með í ferðina örlagaríku til Kólumbíu þar sem flestir liðsfélagar hans létu lífið í flugslysi.

Nivaldo er 42 ára gamall og átti að leika kveðjuleik sinn í marki Chapecoense í lokaumferð brasilísku A-deildarinnar. Það átti jafnframt að vera hans 300. leikur fyrir félagið en nú er ljóst að hann fer ekki fram.

„Ég átti að fara með í ferðina en niðurstaðan var sú að ég varð eftir heima,“ sagði Nivaldo við fréttamenn í dag.

Hann fór ekki með liðinu í næstsíðasta leikinn í deildinni, gegn Palmeiras, um síðustu helgi. Síðan var gerð sú breyting á ferðatilhögun liðsins að það kom ekki heim til Chapecó á milli leikja, heldur fór beint áleiðis til Medellín í Kólumbíu. 

„Þjálfarinn sagði að þar með yrði ég ekki tekinn með,“ sagði Nivaldo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert