Inter ítalskur meistari

Hópslagsmál brutust út í tvígang í lok leiks.
Hópslagsmál brutust út í tvígang í lok leiks. AFP/Gabriel Bouys

Inter Mílanó tryggði sér í kvöld ítalska meistaratitilinn með því að leggja erkifjendur sína og nágranna í AC Milan að velli, 2:1, í A-deildinni í knattspyrnu karla á San Siro-leikvanginum í kvöld.

Ljóst var að sigur myndi nægja Inter til þess að tryggja titilinn og það þrátt fyrir að enn séu fimm umferðir óleiknar.

Slíkir hafa yfirburðir Inter verið á tímabilinu að liðið er nú með 17 stiga forskot á AC Milan og eiga grannarnir því ekki möguleika á titlinum í ár.

Í kvöld voru það Francesco Acerbi og Marcus Thuram sem skoruðu mörk Inter. Acerbi skoraði á 18. mínútu og Thuram á 49. mínútu.

Fikayo Tomori minnkaði muninn fyrir AC Milan tíu mínútum fyrir leikslok en nær komust heimamenn, eins og þeir voru skráðir í kvöld á sameiginlegum leikvangi liðanna, ekki.

Í uppbótartíma brutust út hópslagsmál þar sem Denzel Dumfries í liði Inter og Theo Hernandez hjá AC Milan fengu báðir beint rautt spjald.

Skömmu síðar gerðist það aftur þegar Davide Calabria, fyrirliði AC Milan, gaf leikmanni Inter olnbogaskot í andlitið og fékk fyrir vikið beint rautt spjald.

Inter vann síðast ítalska meistaratitilinn árið 2021 og hefur nú orðið Ítalíumeistari alls 20 sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert