Íslandsmet Einars Karls hápunkturinn

Ungmennafélagið IÐ Reynir frá Árskógsströnd er lítið en gamalgróið félag sem komst svo sannarlega á kortið og velti þungu hlassi þegar það blés til stökkmóts í Íþróttahöllinni á Akureyri sl. sunnudagskvöld. Helstu stökkstjörnur landsins og erlendir Evrópu- og heimsmeistarar mættu og Stefán Þór Sæmundsson fylgdist með þessum stórviðburði í norðlensku íþróttalífi og varð vitni að því þegar heimsfrægar hetjur urðu að sætta sig við að hverfa í skugga 18 ára Húnvetnings, Einars Karls Hjartarsonar, sem tvíbætti Íslandsmetið í hástökki. Stökkmót sem þetta er vissulega stór biti að kyngja. Kristján Sigurðsson, Reynismaður í mótstjórn, var ekki laus við streitu hálftíma áður en keppnin átti að hefjast. "Þetta er alveg að smella en það má varla tæpara standa. Við fengum 200 vörubretti sem búið er að raða hér upp og 3 tonn af gúmmíi úr Reykjavík ofan á til að leggja brautirnar. Síðan eru það hástökksdýnur frá Dalvík og Árskógsströnd, stangarstökksuppistöður frá Sauðárkróki og svo náttúrlega allur sandurinn sem búið er að keyra hingað inn. Það hafa tugir manna unnið eins og skepnur í allan dag og þetta er varla tilbúið ennþá," sagði Kristján.

 Allt virtist þó til reiðu upp úr kl. 20 er keppendur voru kynntir og hylltir með lófataki og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, setti mótið formlega. Hann gat þess sem gamall félagi í Ungmennafélagi Svarfdæla að hann hefði ekki getað látið sig dreyma um að nágrannarnir á Árskógsströndinni ættu eftir að fara út í svona ævintýri. Kristján sagði að þetta sýndi hvað Eyfirðingar gætu þegar þeir stæðu saman, enda er hann ákafur talsmaður sameiningar sveitarfélaga við Eyjafjörð.

Gott stangarstökk hjá Jóni Arnari

 Áhorfendur troðfylltu Höllina og stemmningin var öllu betri en menn eiga að venjast þar á bæ. Raunar minnti þetta um margt á popptónleika, börn og unglingar fjölmenntu og hrópuðu á átrúnaðargoð sín, Jón Arnar og Völu, en Erki Nool, Sebastian Chmara, Þórey Edda, Zsuzsa Szabó og Einar Karl fengu líka afar hlýjar móttökur, sem og keppendur allir.  Fyrst var keppt í stangarstökki karla, hástökki kvenna og langstökki kvenna. Í stangarstökkinu fór keppnin hægt af stað. Chmara fór yfir 4,60 m í annarri tilraun og 4,80 sömuleiðis. Jón Arnar var í basli, felldi 4,80 tvívegis og það fór um áhorfendur. En Jón Arnar brást þeim ekki, hann renndi sér yfir í síðustu tilrauninni og tók 5 metra í fyrstu atrennu. Chmara gerði slíkt hið sama.  Jón Arnar tók forystu í keppninni þegar hann fór yfir 5,10 í fyrstu tilraun en Chmara og Erki Nool felldu. Báðir yfirstigu þeir þessa hindrun í öðru stökki en Nool lenti eiginlega til hliðar við dýnuna og meiddist dálítið við fallið. Hann sat með kælipoka við kálfann meðan Jón og Chmara glímdu við 5,20. Pólverjinn felldi en Jón Arnar komst yfir í þriðju tilraun, jafnaði sinn besta árangur og allt varð vitlaust í Höllinni. Næsta hæð var 5,30 en ekki tókst Jóni að jafna Íslandsmetið að þessu sinni. Nool harkaði af sér og komst yfir í annarri tilraun en ekki hærra. Þetta nægði honum til sigurs en árangur Jóns Arnars var vissulega góður og ljóst að hann á að geta tekið Íslandsmetið.

Kraftur í konunum  Stelpurnar í langstökkinu voru í essinu sínu og árangur góður þótt Íslandsmetið (6,02) hafi ekki verið í stórhættu. Guðný Eyþórsdóttir úr ÍR sigraði örugglega, stökk 5,80 sem er hennar besti árangur. Sigurlaug Níelsdóttir úr UMSE bætti sig líka, varð í 2. sæti með 5,42 m og Anna Margrét Ólafsdóttir, UFA, jafnaði sinn besta árangur með því að stökkva 5,18 m. Þá setti Vilborg Jóhannesdóttir úr Tindastóli einnig persónulegt met, stökk 5,04 m.  Eins og gefur að skilja vakti langstökkið ekki eins mikla athygli og stangarstökk karla þar sem hetjurnar svifu um háloftin en stúlkurnar fengu samt góða hvatningu því áhorfendur voru vel með á nótunum og kynnirinn, Sigfús Karlsson, sömuleiðis. Stúlkurnar í hástökkinu voru frekar spakar. Þar sigraði drottningin Þórdís Gísladóttir úr ÍR og lét hún sér nægja að stökkva 1,73 m. Íslandsmet hennar, 1,88, verður sjálfsagt seint slegið. Maríanna Hansen varð í 2. sæti með 1,65 og Guðbjörg Lilja Bragadóttir þriðja með sömu hæð. Nú tókst það hjá Einari!

 Í seinni lotunni stukku konur á stöng en karlar reyndu með sér í hástökki og langstökki. Áhorfendur þurftu að bíða æði lengi eftir stangarstökkinu, þar dróst undirbúningur á langinn en karlarnir luku nánast við sínar greinar á meðan. Og það var sannarlega þess virði að láta hástökkið njóta sín að þessu sinni; Íslandsmetið tvíbætt.  Ólafur Símon Ólafsson fór vel yfir 1,90 m en fann sig ekki og felldi tvo metra. Sebastian Chmara, Einar Karl Hjartarson og Vegard Hansen frá Noregi fóru léttilega yfir 2 metra. Hansen fór síðan yfir 2,05 en Chmara felldi. Einar og Hansen stukku yfir 2,10 m í fyrstu tilraun og stefndi í spennandi einvígi þessara ungu stökkvara. Hansen hefur stokkið 2,17 m og Íslandsmet Einars var 2,16.  Það var ljóst að Einar Karl stefndi hátt. Hann sleppti næstu hæð, 2,14 m. Hansen felldi þrívegis. Einar reyndi við nýtt Íslandsmet, 2,17. Hann felldi í tvígang en fékk síðan gríðarlegan stuðning frá áhorfendum og flaug yfir rána í lokatilrauninni og allt ætlaði um koll að keyra. Íslandsmet í hástökki innanhúss hafði litið dagsins ljós á Akureyri.  Einar var í skýjunum, áhorfendur trylltir, stemmningin mögnuð og menn vildu meira. Þegar ráin var hækkuð í 2,20 metra var Einar ekkert að tvínóna við hlutina heldur vippaði sér yfir í fyrstu tilraun og eflaust hefur stuðningur áhorfenda gefið honum einhverja millimetra. Hvílíkur fögnuður! Einar átti síðan þrjár ágætis tilraunir við 2,22 en hann var búinn að skila sínu og ríflega það með tvíbættu Íslandsmeti.

Ólafur lagði Jón Arnar

 Langstökk karla var heldur tilþrifalítið, ekki síst ef miðað er við hástökkið. Reyndar var komin upp heldur óvænt staða eftir tvær umferðir. Þá var Arnar Már Vilhjálmsson, UFA, efstur með 7,05, Ólafur Guðmundsson, Selfossi, annar með 7,04 og Jón Arnar Magnússon þriðji með aðeins 6,98. Jóni tókst síðan að skríða fram úr Arnari í þriðju umferð með því að stökkva 7,06 metra en Ólafur gerði betur og stökk 7,18. Lengra var ekki stokkið að þessu sinni.  Það er fátítt að Jón Arnar bíði lægri hlut í langstökki og varla oft sem Ólafi tekst að sigra frænda sinn. "Nei, það er ekki oft nú í seinni tíð en kemur þó fyrir," sagði Ólafur. "Þetta er þó varla marktækt því Jón Arnar var þreyttur eftir stangarstökkið og náði sér ekki á strik. Ég er þokkalega ánægður með árangurinn. Ég átti ógilt stökk upp á sjö og hálfan metra og það lofar góðu. Það var mjög gott að stökkva hérna og mikil stemmning."

Spennufall í stangarstökkinu

 Stangarstökk kvenna varð ekki sá hápunktur sem margir höfðu vonast eftir og raunar hægt að tala um ákveðið spennufall þar. Monique DeWilt frá Hollandi komst ekki yfir byrjunarhæðina, 3,80. Það gerði Þórey Edda Elísdóttir hins vegar auðveldlega og var svo sem búin að stökkva þá hæð tvisvar í hinum langa undirbúningi sem mörgum þótti einkennilegur. Þórey Edda virtist máttlítil þegar hún reyndi við 4 metra og hún felldi þá hæð þrisvar og var þar með úr leik. Vala Flosadóttir stökk léttilega yfir 4 metra.  Áhorfendur voru vel með á nótunum og bjuggust við spennandi einvígi. Nú voru aðeins Vala og Zsusa Szabó frá Ungverjalandi í baráttunni, silfurverðlaunahafinn á heimsmeistaramótinu á móti bronsverðlaunahafanum. Þær fóru báðar vel yfir 4,20 metra og kannski ekki hægt að ætlast til þess að þær fari mikið hærra þegar ekki stendur meira til en áhorfendur vildu meira. Leikar fóru þó svo að bæði Vala og Szabó felldu 4,30 og urðu jafnar í 1.-2. sæti en Þórey Edda hreppti það þriðja.  Mótinu lauk er klukkuna vantaði fjórðung í ellefu og í mótslok ætluðu ungir áhorfendur bókstaflega að kaffæra frjálsíþróttahetjurnar og það var nóg að gera hjá þeim við eiginhandaráritanir. Vel heppnuðu stökkmóti var lokið.  Jón Sævar Þórðarson, framkvæmdastjóri mótsins, var himinlifandi með mótshaldið, árangurinn og áhorfendur, sem hafa líklega verið ríflega 1.500. "Þetta er náttúrlega langstærsti viðburðinn á sviði frjálsra íþrótta sem Eyfirðingar hafa staðið að og gefur vonandi tóninn fyrir framhaldið. Við sýndum að þetta er hægt og það var líka markmiðið. Sömuleiðis vildum við glæða áhugann á frjálsum íþróttum hér og vekja athygli á aðstöðunni. Auðvitað væri betra að þurfa ekki að standa í allri þessari smíðavinnu og til dæmis mætti vera stangarstökksstokkur á réttum stað í gólfinu, sem ætti ekki að vera mikið mál. Aðstaðan mætti því vera betri en þetta er hægt með mikilli vinnu. Þetta gekk upp og við erum himinlifandi," sagði Jón Sævar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert