Eygló Ósk: Stefnir á ÓL lágmark á morgun

Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Ægi, sagði það hafa komið sér á óvart hversu mikið hún bætti Íslandsmetið í 200 m fjórsundi á fyrsta keppnisdegi Íslandsmeistaramótsins í sundi í 50 m laug.

Eygló Ósk bætti Íslandsmet Hrafnhildar Lúthersdóttur, SH, um fjórar sekúndur en um leið bætti Eygló Ósk sinn fyrri árangur um sex sekúndur, og einnig stúlknametið. Hún synti á 2.14, 87 mínútum og er 1,5 sekúndum frá lágmarki fyrir Ólympíuleikanna í þessari grein, en 200 m fjórsund er ekki aðalgrein Eyglóar.

Hún segir miklar framfarir á síðasta ári vera uppskeru mikilla æfinga. Eygló Ósk stefnir á að ná lágmarksárangri í 200 m baksundi fyrir Ólympíuleikanna. „Ég ætla að gera atlögu á morgun,“ segir hin 16 ára gamli Íslandsmethafi og Íslandsmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert