Sigrún Brá: Gaman að fá hörkukeppni

Sigrún Brá Sverrisdóttir úr Ægi þurfti svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum í 800 m skriðsundi á Íslandsmeistaramótinu í Laugardalslaug í dag. Hún fékk harða keppni frá Ingu Elínu Cryer, ÍA, en Inga hafði forystu framan af sundinu.

Sigrún Brá er á þriðja ári við nám í efnaverkfræði við University of  Arkansas og fær fullan skólastyrk gegn því að keppa fyrir skólalið félagsins í sundi. Hún kom til landsins til þess að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu og heldur aftur út til Bandaríkjanna eftir helgina. Sigrún Brá segir gaman að koma heim og fá hörkukeppni í 800 m skriðsundi. Slíkt hafi hún ekki upplifað lengi.

Sigrún Brá setti fyrir skömmu Íslandsmet í 800 m skriðsundi á Grand Prix móti í Bandaríkjunum er hún synti vegalengdina á 8.53,76 mínútum. Í dag kom hún í mark á 9.00,08 mínútum og var rúmum þremur sekúndum á undan Ingu Elínu. Sigrún Brá bætti mótsmetið en hún segir hæga byrjun sína í sundinu í dag hafa komið í veg fyrir að tíminn væri betri en raun varð á. „Ég var ekki nóg ákveðin á fyrri hluta sundsins,“ sagði nýbakaður Íslandsmeistari í 800 m skriðsundi kvenna, Sigrún Brá Sverrisdóttir, sem  stefnir á að taka þátt í 200 og 400 m skriðsundi á mótinu áður en því lýkur á síðdegis á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert