Jóhanna: Ólympíulágmarkið stór draumur

Jóhanna Gerða Gústafsdóttir setti glæsilegt Íslandsmet í 400 metra fjórsundi á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug sem lauk í dag. Jóhanna bætti auk þess sinn besta árangur í greininni um heilar 10 sekúndur en hún kom að bakkanum á tímanum 4:57,46 mínútum. Íslandsmetið í greininni átti Hrafnhildur Lúthersdóttir en það var 5:00,25.

Jóhanna sagði í samtali við mbl.is eftir sundið að hún hafi hætt að æfa í tvö ár áður en hún byrjaði aftur í ágúst á síðasta ári. Eftir strangar æfingar í Bandaríkjunum hefur henni þó tekist að komast í sitt gamla form og vel það.

Hún sagðist ekki hafa átt von á að toppa með þessum hætti á mótinu og sagðist jafnframt ekki getað beðið eftir sumrinu. Þá sagði hún Ólympíulágmarkið stóran draum en A-lágmarkið er 4:41,75 og OST lágmarkið eða boðslágmarkið er 4:51,75.

Nánar er rætt við Jóhönnu Gerði í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert