Birkir: Engar stórstjörnur en ekkert vanmat

„Ég held að menn séu búnir að ná sér vel niður á jörðina og séu stemmdir fyrir leikinn,“ sagði Birkir Árnason, varnarmaðurinn hávaxni í íslenska landsliðinu sem leikur sinn 40. landsleik þegar Ísland mætir Ástralíu á morgun kl. 14.30 í A-riðli 2. deildar HM í íshokkíi.

Ísland vann frækinn sigur á Belgum í gær sem jók til muna möguleika liðsins á að landa silfurverðlaunum á mótinu, sem yrði besti árangur Íslands frá upphafi. Til að ná því takmarki má liðið hins vegar illa við að misstíga sig gegn Áströlum.

„Það eru engar stórstjörnur í þessu liði sem við þurfum að passa sérstaklega, en þetta er jafnt og sterkt lið. Þetta verður hörkuleikur. Við vanmetum engan andstæðing og vitum að þeir geta refsað okkur ef við spilum ekki agað,“ sagði Birkir. Hann gegnir mikilvægu hlutverki í vörn Íslands sem hefur staðið sig vel í mótinu til þessa.

„Vörnin hefur gengið mjög vel. Okkur hefur gengið vel að spila einum færri í vörninni og lokað miðjunni mjög vel. Við leyfum andstæðingnum að eyða orkunni í að spila í kringum okkur, og þá höfum við orkuna til að sækja á móti þegar við náum pekkinum,“ sagði Birkir. Fyrir aftan hann og aðra varnarmenn Íslands er Dennis Hedström markvörður sem er afar mikilvægur fyrir liðið.

„Manni líður bara mjög vel þegar maður veit að maður getur leyft skotinu að koma og treyst því að Dennis taki pökkinn. Svo virðist vera voðalega einfalt fyrir fyrstu línuna okkar að skora og við erum auðvitað mjög ánægðir með það. Við treystum á þá að búa til mörk og við hinir getum einbeitt okkur að því að spila trausta vörn, og treyst á að færin detti inn hjá okkur,“ sagði Birkir.

Leikur Íslands og Ástralíu hefst eins og áður segir kl. 14.30 að íslenskum tíma og er í beinni textalýsingu hér á mbl.is líkt og aðrir leikir Íslands á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert