Dennis varið best og Robin næstmarkahæstur

Robin Hedström fygldist með næstu andstæðingum Íslands, Serbum, spila gegn …
Robin Hedström fygldist með næstu andstæðingum Íslands, Serbum, spila gegn Eistlandi í kvöld. mbl.is/Sindri

Robin Hedström, skotmaðurinn öflugi í íslenska landsliðinu, er næstmarkahæstur allra leikmanna í A-riðli 2. deildar HM eftir þrjár umferðir af fimm. Dennis bróðir hans er með bestu markvörsluna.

Dennis hefur fengið á sig 111 skot, og aðeins níu þeirra hafa endað með marki. Hann er því með 91,89% markvörslu. Næstur er markvörður Eistlands, Aleksandre Kolossov, sem hefur varið 91,18% af aðeins 34 skotum sem hann hefur fengið á sig.

Robin skoraði fjórða markið sitt í mótinu þegar Ísland vann Ástralíu í framlengdum leik í dag, 3:2. Hann hafði áður skorað þrennu í sigrinum á Belgum á fimmtudaginn. Heimamaðurinn Marko Kovacevic er markahæstur með 5 mörk en Serbar sölluðu inn mörkum gegn Ísrael á fimmtudaginn og unnu 10:6-sigur.

Robin hefur þar að auki lagt upp eitt mark en Emil Alengård hefur lagt upp flest mörk Íslendinganna eða fjögur. Aðeins Ísraelinn Daniel Erlich, með 7 stoðsendingar, og Eistlendingurinn Roman Andrejev, með 6 stoðsendingar, hafa lagt upp fleiri mörk.

Í lokaleik dagsins vann Eistland sigur á Serbum, 5:2, eftir að hafa lent undir frammi fyrir öflugum stuðningi heimamanna. Eistar eru því áfram með fullt hús stiga og nánast öruggt að þeir fari aftur upp í 1. deild.

Ísland er í 2. sæti með 5 stig líkt og Belgar en heldur sætinu vegna sigursins í innbyrðis leik liðanna. Næsti leikur er gegn Serbum á mánudagskvöld en Serbar eru með 3 stig líkt og Ísrael. Ástralía er neðst með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert