Ólafur: Ég er með eitt „go-to move“

„Ég er bara feginn, fyrst og fremst, að hafa náð að klára þetta í vítakeppninni,“ sagði Ólafur Hrafn Björnsson sem skoraði úr fyrsta víti Íslands þegar liðið vann Serbíu í vítakeppni í kvöld, í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí.

Staðan var 3:3 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti framlengingu og svo vítakeppni til að knýja fram úrslit. Ólafur var óhress með að úrslitin skyldu ekki þegar vera ráðin eftir leikhlutana þrjá.

„Þeir gáfu okkur hellings tíma, sem við erum ekki búnir að fá áður í mótinu. Við nýttum það ekki alveg nógu vel, vorum svolítið á hælunum en hefðum átt að nýta tækifærið, spila hratt og keyra yfir þá,“ sagði Ólafur sem hikaði auðvitað ekki þegar hann var beðinn um að taka fyrsta víti Íslands.

„Ég fékk bara að heyra það 15 sekúndum áður en ég fór inná, en ég bara nýtti tækifærið. Ég er með eitt „go-to move“ eins og það kallast, sem er nokkuð öruggt,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert