Skref upp í hvert sinn

Björn Már Jakobsson í leik með SA.
Björn Már Jakobsson í leik með SA. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Fyrir 17 árum lenti hópur íslenskra stráka hér í Belgrad með kylfur og skauta í farteskinu, tilbúinn að taka þátt í fyrsta heimsmeistaramóti Íslands í íshokkíi. Um var að ræða HM 18 ára og yngri og í hópnum voru meðal annars Björn Már Jakobsson, Jón Gíslason, Ingvar Þór Jónsson og Jónas Breki Magnússon.

„Það hefur nú margt breyst hérna frá því að við komum á okkar fyrsta mót. Þegar við komum hingað í fyrsta sinn held ég að þetta hafi heitið Júgóslavía og gott ef við komum ekki hingað í vopnahléi. Svo var allt sprengt í loft upp mánuði eftir að við fórum. En við vorum ungir og vitlausir og ekkert að spá í það. Við fórum í þetta fyrsta mót með því hugarfari að við ætluðum að rúlla því upp. Já, já, ekkert mál. Við unnum einn leik í mótinu, gegn Tyrkjum, en svo vorum við alveg teknir í bakaríið,“ sagði Björn þegar hann settist niður með blaðamanni í Belgrad í gær.

Skrefin breyst í stökk

Fjórmenningarnir eru nú allir mættir aftur til Belgrad á enn eitt heimsmeistaramót sitt með A-landsliðinu. Ingvar og Breki voru báðir í fyrsta A-landsliðinu sem lék á HM í Suður-Afríku 1999, og þeir Björn og Jón bættust við ári síðar. Björn leikur sinn 70. A-landsleik í dag þegar Ísland mætir Serbum í A-riðli 2. deildar, þar sem Ísland er í góðri stöðu til að bæta enn sinn besta árangur frá upphafi með því að ná í silfurverðlaun.

„Þetta hefur bara verið þannig öll þessi ár sem við höfum verið í þessu, að við tökum skref upp á við í hvert skipti. Frá árinu 2008 eða 2009 eru þetta talsvert fleiri stökk sem við tökum í einu,“ sagði Björn. Á fyrri árum mátti liðið stundum þola stóra skelli en hefur sýnt undanfarið að það sómir sér vel í A-riðli 2. deildar, og skrefið upp í 1. deild verður sífellt minna.

Sjá nánar viðtalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert