Í lífshættu eftir að hafa fengið bolta í höfuðið

Phil Hughes var vitaskuld með hjálm en höggið var engu …
Phil Hughes var vitaskuld með hjálm en höggið var engu að síður þungt og hann liggur nú í dái á sjúkrahúsi. AFP

Ástralski landsliðsmaðurinn Phil Hughes berst nú fyrir lífi sínu eftir að hafa fengið bolta á miklum hraða í höfuðið í krikket-leik.

Hughes, sem er 25 ára gamall og leikur með South Australia, féll til jarðar á andlitið eftir að Sean Abbott, leikmaður New South Wales, sló boltann af krafti í hjálm Hughes.

Hughes var borinn af velli á börum og fluttur á sjúkrahús þar sem hann liggur nú í dái eftir aðgerð, samkvæmt frétt BBC. Samkvæmt lækninum Peter Brukner verður ekki hægt að segja meira til um ástand hans fyrr en á morgun.

Fréttamaðurinn Peter Lalor lýsti slysinu í viðtali við BBC:

„Hann virtist steinrunninn og hengdi haus, og við héldum að hann myndi jafna sig en svo féll hann illa til jarðar. Hann setti hendurnar ekki fyrir sig og þá vissum við að þetta væri alvarlegt. Það versta var sennilega að þeir urðu að nota munn-við-munn aðferðina til að blása í hann lífi fyrir framan alla,“ sagði Lalor.

„Hann er einn virtasti og vinsælasti krikket-spilari Ástrala, á sér ekki nokkurn óvin og er frábær félagi,“ bætti Lalor við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert