Sýnir hvert Aníta er komin

Aníta Hinriksdóttir náði besta árangri sem Íslendingur hefur náð á …
Aníta Hinriksdóttir náði besta árangri sem Íslendingur hefur náð á EM innanhúss frá árinu 1998. mbl.is/Eggert

„Það sýnir hvert Aníta er komin að maður er örlítið svekktur þegar það munar svona litlu að hún komist á verðlaunapall,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, eftir að hún lenti í 5. sæti í 800 metra hlaupi á EM innanhúss í Prag í dag.

Aníta var í forystu lengi vel í úrslitahlaupinu í dag en kom að lokum síðust í mark, aðeins 49/100 úr sekúndu frá bronsverðlaunum.

„Auðvitað getur maður ekki annað en verið stoltur af árangrinum hjá henni. Hún er komin á þennan stall, að keppa í úrslitum í fullorðinsflokki og eiga eiginlega sömu möguleika og aðrar um að komast á verðlaunapall,“ sagði Gunnar Páll við mbl.is.

Hefði hentað betur að hafa Meadows

„Í dag held ég að þetta hafi aðallega snúist um reynslu. Hún var ósátt við sig að hafa ekki náð að útfæra allt sem við höfðum talað um varðandi síðustu 100 metrana. En það er nú bara í svona taktísku hlaupi. Hún hefur í sjálfu sér of litla reynslu af svona taktískum hlaupum. Heima er hún alltaf að keppa við tíma, og þannig er það mjög oft í unglingahlaupunum líka. Þá hefur hún ekkert þurft að hugsa um taktík. Núna er hún komin í hlaup þar sem allir keppendur geta í rauninni unnið. Þá er þetta orðið allt öðruvísi,“ sagði Gunnar Páll.

Þjálfarinn segir að það hefði hugsanlega hentað Anítu betur hefði hin breska Jenny Meadows getað keppt í dag.

„Menn reiknuðu með að Jenny Meadows myndi keyra fyrst í dag en svo gat hún ekki keppt vegna veikinda. Það hefði hentað betur fyrir Anítu ef hún hefði keppt því þá hefði hlaupið getað þróast allt öðruvísi, og Aníta keyrt á þeim hraða sem henni líður vel á. En það koma upp alls konar aðstæður í þessu og það þarf að bregðast við því,“ sagði Gunnar Páll.

Fannst hún eiga að gera betur

Úrslitahlaup í flokki fullorðinna á stórmóti eru um margt ólík þeim hlaupum sem Aníta hefur keppt í enda aðeins 19 ára gömul. Hún er þaulvön því að hafa yfirburði gagnvart keppinautum sínum.

„Þetta er annar leikur. Núna er síðasta árið hjá henni í unglingaflokki og núna tekur svolítið annað við. En hún er búin að sanna sig með því að komast í þetta úrslitahlaup. Maður heyrir það alveg á mönnum hérna. Það voru fleiri en sex sem ætluðu sér í þetta úrslitahlaup. Aníta var auðvitað eini unglingurinn í úrslitahlaupinu og þetta er ómetanleg reynsla, og í sjálfu sér hefði þetta getað endað með verðlaunum því það munaði mjög litlu. Anítu fannst hún eiga að geta þetta en hinar voru bara aðeins sterkari í lokin,“ sagði Gunnar Páll.

„Fyrst eftir hlaupið var Aníta ekki sátt. Henni fannst hún eiga að gera betur. En hún er bara svo rosalega metnaðarfull. Þetta er besti árangur Íslands á EM innanhúss síðan Vala Flosadóttir fékk brons árið 1998,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka