Greiða fórnarlömbum á annan tug milljarða

Larry Nassar.
Larry Nassar. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur samþykkt að greiða fórnarlömbum Larry Nassar, fyrrverandi læknis bandaríska landsliðsins í fimleikum, háar fjárhæðir vegna mistaka alríkislögreglunnar við rannsókn á stórfelldum kynferðisbrotum Nassars.

Á annað hundrað fórnarlamba Nassars, lögðu í sameiningu fram kæru árið 2022 þar sem alríkislögreglan var sökuð um að hafa ekki brugðist tímanlega við trúverðugum ásökunum í garð hans og ekki tekið þær alvarlega.

175 ára fangelsisdómur

Dómsmálaráðuneytið mun alls greiða 139 fórnarlömbum Nassars 138,7 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 19,6 milljarða íslenskra króna, fyrir afglöp alríkislögreglunnar í starfi.

Á meðal fórnarlamba Nassars eru nokkrar af fremstu fimleikakonum Bandaríkjanna, Simone Biles, Aly Raisman og McKayla Maroney, sem allar hafa unnið ólympíugull.

Nassar afplánar nú allt að 175 ára fangelsisdóm vegna brota sinna.

Aly Raisman, Simone Biles, McKayla Maroney og Maggie Nichols báru …
Aly Raisman, Simone Biles, McKayla Maroney og Maggie Nichols báru allar vitni fyrir öldungadeild bandaríska þingsins árið 2021. AFP

Hélt störfum áfram í ár eftir fyrstu ásakanir

Rannsókn alríkislögreglunnar á Nassar hófst árið 2015 en samkvæmt ríkiseftirliti dómsmálaráðuneytisins, sem sinnir eftirliti með ríkisstofnunum í Bandaríkjunum, gerðist alríkislögreglan uppvís að fjölda mistaka.

Ásakanir voru hunsaðar og fundir með embættismönnum hjá Fimleikasambandi Bandaríkjanna voru ekki formlega skrásettir með fundargerðum.

Þá láðist alríkislögreglunni að tilkynna ríkis-, borgar- og bæjaryfirvöldum um mögulega hættu sem íþróttafólki gæti stafað af Nassar.

Hann hélt áfram að sinna skjólstæðingum í rúmt ár eftir að alríkislögreglunni var kunngjört um ásakanir í garð Nassars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert