Lélegt af okkar hálfu

Kristrún Steinþórsdóttir sækir að marki Hauka í kvöld.
Kristrún Steinþórsdóttir sækir að marki Hauka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram tapaði gegn Haukum í framlengdum leik í undanúrslitaviðureign liðanna í Íslandsmóti kvenna í handbolta í kvöld. Fram var með unninn leik þegar tæplega þrjár mínútur voru eftir af leiknum en Haukum tókst að knýja fram framlengingu og vinna að lokum fjögurra marka sigur.

Einar Jónsson þjálfari Fram var mjög svekktur með leik sinna kvenna síðustu mínúturnar í leiknum og hafði þetta að segja:

„Við vorum betri í 50 mínútur og þær í 20. Það dugði til. Við vorum með öll tök á leiknum þar til síðustu fimm mínúturnar og þá bara erum við sjálfum okkur verst og þær refsa okkur. Mér fannst þetta bara lélegt af okkar hálfu.“

Það kemur sjö marka sveifla þegar þrjár mínútur eru eftir og þar til framlengingu lýkur. Hvað gerðist hjá Fram á þessum kafla?

„Við fundum ekki lausnir, skjótum illa og tökum lélegar ákvarðanir. Þetta leit út eins og við værum bara bensínlaus. Það kom bara skjálfti og stress á meðan þær fá fullt af orku eftir að hafa náð að jafna og skora ódýr mörk. Þegar við hefðum átt að auka forystuna þá ná þær að troða inn mörkum.“

Það leit út á löngum köflum eins og það vantaði bara herslumuninn fyrir Fram að ganga alveg frá leiknum en það tókst aldrei. Af hverju?

„Það vantaði bara skynsemi, betri ákvarðanir. Hvort það sé reynsluleysi skal ég ekki segja en við vorum bara ekki nógu klók og við gáfum þeim tækifæri til að jafna þetta og það gerðu þær vel. Það var síðan bara eitt lið hérna inn á í framlengingunni.“

Átti Einar Jónsson að taka leikhlé þegar það var mínúta eftir og þið enn þá yfir?

„Já alveg klárlega, þegar það var ca. mínúta eftir átti ég að taka leikhlé og láta stelpurnar anda, endurskipuleggja þetta. Líka í ljósi þess hve sóknirnar voru lengi og ég hugsaði alltaf að við ættum alltaf eina sókn eftir en svo var það bara rangt mat hjá mér en klárlega, ég átti að taka leikhlé.“

Nú er Fram undir í einvíginu og næsti leikur á Ásvöllum. Hvað þarf að breytast til að Fram vinni næsta leik?

„Við þurfum að halda einbeitingunni lengur og klára allt alveg til enda. Vörnin var fín á köflum í dag og sóknarleikurinn fínn framan af en svo slokknaði á honum síðustu tíu mínúturnar og það var enginn sóknarleikur í framlengingunni. Núna bara förum við yfir þetta og endurskipuleggjum allt og mætum ferskar á Ásvelli,“ sagði Einar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert