Ekkert sætara að vinna þær

Elin Klara Þorkelsdóttir sækir að marki Fram í leiknum í …
Elin Klara Þorkelsdóttir sækir að marki Fram í leiknum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefán Arnarson þjálfari Hauka var kátur með stórkostlegan sigur Hauka á Fram í undanúrslitaeinvígi liðanna í Íslandsmóti kvenna í handbolta í gærkvöldi.

Með sigrinum eru Haukar 1:0 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn Val eða ÍBV.

Spurður út í hvernig það hafi verið að mæta sínu gamla liði Fram í svona spennuleik sagði Stefán:

„Fram er frábært lið og hér var ég í mörg ár og ber mikla virðingu fyrir liðinu og leikmönnum. Það er alltaf skemmtilegra að vinna en tapa en það er ekkert sætara að vinna þær en önnur lið.“

Þið eruð þremur mörkum undir þegar það eru tæplega 3 mínútur eftir. Haukar jafna og vinna svo með fjórum. Þetta er sjö marka viðsnúningur. Hvar fundu Haukar þessa orku til að klára þennan leik með þessum hætti?

„Við fundum þessa orku í desember síðast þegar við vorum fjórum mörkum undir og unnum Val. Við höfðum trú á okkur. Við byrjum illa og gerðum mikið af mistökum og gáfum mörk. Þegar við lögum það þá kom varnarleikurinn inn og markvarslan. Þegar það lagast þá getur allt gerst,“ sagði hann.

Fram byrjar leikinn mun betur og þið jafnið, komist yfir en síðan kemst Fram aftur yfir og virðist ætla að klára leikinn. Eru þetta sanngjörn úrslit?

„Það hljóta alltaf að vera sanngjörn úrslit að liðið sem skorar meira vinni. Handbolti er hröð íþrótt og þetta er fljótt að breytast. Það gerðist í dag en það gerist ekki alltaf,“ sagði Stefán.

Er reynslan Hauka megin í ljósi þess að þið skorið öll mörk framlengingarinnar en Fram átti aldrei séns?

„Nei, þetta gerist stundum í handboltaleikjum að það komi svona stífla og það gerðist hjá Fram í dag en ég er ekki viss um að það gerist aftur. Fram er með frábært lið og þær verða skeinuhættar á föstudaginn,“ sagði hann.

Flestir spáðu því að Fram færi áfram úr þessari seríu en nú eru Haukar yfir. 

„Já, en þetta er bara rétt að byrja. Einn sigur skiptir engu þegar þú þarft að vinna þrjá. Fram á jafn mikla möguleika og Haukar að vinna þrjú einvígi ennþá,“ sagði Stefán að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert