Aftur unnu Haukar framlengdan spennuleik

Haukakonan Sara Odden sækir að marki Fram.
Haukakonan Sara Odden sækir að marki Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annar leikur Hauka og Fram í undanúrslitaviðureign liðanna í Íslandsmóti kvenna í handbolta fór fram á Ásvöllum í kvöld og lauk leiknum með sigri Hauka 28:25 eftir framlengdan leik. Staðan í einvíginu er því 2:0 fyrir Hauka sem eru einum sigri frá úrslitaeinvígi.

Fyrri hálfleikur leiksins var hnífjafn frá upphafi til enda. Haukar skoruðu fyrsta mark leiksins en Fram jafnaði strax í næstu sókn. Þannig hélt þetta áfram allt þangað til Fram jafnaði í stöðunni 5:5 og komst yfir 6:5. Haukar jöfnuðu strax og komust aftur yfir í stöðunni 7:6 og náðu mest tveggma marka forystu en Fram minnkaði þann mun jafnóðum.

Elín Klara Þorkelsdóttir átti flottan fyrri hálfleik fyrir Hauka og skoraði 4 mörk. Margrét Einarsdóttir var frábær í marki Hauka í fyrri hálfleik og varði 7 skot en Andrea Gunnlaugsdóttir varði 2 skot fyrir Fram. Markaskorun Fram var mjög dreifð í fyrri hálfleik en þær Lena Margrét Valdimarsdóttir, Alfa Brá Hagalín, Kristrún Steinþórsdóttir og Steinunn Björnsdóttir voru allar með 2 mörk.

Svo fór að fyrri hálfleikur endaði eins og hann byrjaði, jafn. Staðan 12:12.

Framarinn Sóldís Rós Ragnarsdóttir sækir að marki Hauka í kvöld.
Framarinn Sóldís Rós Ragnarsdóttir sækir að marki Hauka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkonur byrjuðu síðari hálfleikinn á að komast tveimur mörkum yfir í stöðunni 14:12 fyrir Fram. Haukar minnkuðu muninn og svo fór að Haukar voru að elta allan síðari hálfleikinn. Munurinn var aldrei meiri en tvö mörk en oftast bara eitt mark. Lykilmaður í liði Hauka í kvöld var Margrét Einarsdóttir sem varði hvert skotið á fætur öðru, sérstaklega í síðari hálfleik. Þegar venjulegum leiktíma lauk var hún búin að vera 15 skot.

Haukum tókst að jafna leikinn í stöðunum 17:17, 18:18, 22:22, 23:23. Fram komst yfir í 24:23 og þegar 55 sekúndur voru eftir voru Haukar í sókn. Sóknin gekk illa og höndin var komin upp þegar Stefán Arnarson tekur leikhlé. Það gekk ekki vel því Andrea Gunnlaugsdóttir varði frá Söru Odden og Fram fór í sókn, marki yfir og aðeins 30 sekúndur eftir.

Fram tók leikhlé og undirbjó sína lokasókn með það að markmiði að skora og innsigla sigurinn og jafna einvígið. Það tókst ekki því Haukar unnu boltann, brunuðu upp í sókn og fiskuðu víti og allt virtist ætla að endurtaka sig frá því í fyrsta leik liðanna. Elín Klara Þorkelsdóttir fór á vítalínuna og jafnaði, alveg eins og hún gerði í Úlfarsárdal, og leikurinn því framlengdur, eins og síðast.

Staðan eftir venjulegan leiktíma 24:24 og leikurinn framlengdur.

Framlengingin var rosaleg. Fram skoraði fyrsta markið og komst í 25:24. Fleiri mörk skoraði Fram ekki í þessum leik. Margrét Einarsdóttir markvörður Hauka kom sá og sigraði og vann þessa framlengingu fyrir Hauka. Hún varði 4 skot í framlenginunni á meðan Haukar jöfnuðu leikinn og skoruðu svo þrjú mörk til viðbótar.

Haukar unnu að lokum þriggja marka sigur 28:25 og eru einum sigri frá því að komast í úrslitaviðureignina gegn Val eða ÍBV.

Markahæstar í liði Hauka voru Sara Odden og Elín Klara Þorkelsdóttir með 7 mörk en maður leiksins Margrét Einarsdóttir varði 19 skot.

Í liði Fram var Alfa Brá Hagalín með 7 mörk en Andrea Gunnlaugsdóttir varði 6 skot.  

Haukar 28:25 Fram opna loka
70. mín. Leik lokið Haukar eru 2:0 yfir í einvíginu og þurfa bara einn sigur í viðbót.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert