Komum brjálaðar í þriðja leikinn

Elín Rósa í kröppum dansi í kvöld.
Elín Rósa í kröppum dansi í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Elín Rósa Magnúsdóttir leikstjórnandi Vals átti magnaðan leik fyrir liðið er Valur komst í 2:0 í undanúrslitaeinvígi sínu gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld. Lokatölur 34:23 en Elín stýrði sóknarleik Vals af mikilli snilld.

„Við byrjuðum þetta af krafti, héldum áfram frá síðasta leik. Við náðum að láta boltann fljóta og mér fannst þetta vera liðssigur í dag,“ sagði Elín þegar hún var spurð að því af hverju Valskonur unnu svona stórt í dag.

Hún segir þó ekki hafa verið lagða áherslu á að koma sér langt á undan ÍBV í upphafi leiks, það hafi bara gerst. „Það var ekkert endilega planið, við vildum fókusa á okkur, en það gengur oftast vel og gekk í dag, það var frábært.“

Valskonur fagna í leikslok.
Valskonur fagna í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Vörn Valskvenna var frábær, sérstaklega í fyrri hálfleik, þar sem Hafdís Renötudóttir átti einnig flottan leik í markinu. Valsliðið byggir mikið upp á sínum sterka varnarleik og markvörslu.

„Við byggjum mikið á því, þetta kemur allt með vörninni og leyfir okkur að keyra á þær þegar vörnin stendur vel.“

Marta Wawrzynkowska er yfirleitt einn af erfiðustu andstæðingum Vals á hverju tímabili en skot Valskvenna rötuðu flest framhjá henni í dag.

„Við erum ánægðar með það, hún nær oft að verja mikið frá okkur þannig við vorum ánægðar með það í dag.“

Er mikilvægt að klára einvígið í þremur leikjum?

„Það er góð spurning, það væri rosalega gott, við erum samt bara að fókusa á það að recovera næstu daga og koma svo brjálaðar í þriðja leikinn.“

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Býst Elín Rósa við miklum stuðningi frá Valsfólki í þriðja leiknum?

„Ég ætla rétt svo að vona það, það er mikill andi núna í Valsheimilinu, margt skemmtilegt í gangi, alls staðar leikir og mikið að gera fyrir Valsara, ég vona að þeir gefi sér smá tíma og mæti.“

Hvernig ber Elín liðið í ár saman við liðið í fyrra?

„Þetta er svipað, mjög góður liðsandi hjá okkur, við náðum í fyrra að verða mjög góðar vinkonur, það hefur haldið áfram og hjálpar okkur innan sem utan vallar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert