ÍBV tryggði oddaleik í vítakeppni

Kári Kristján Kristjánsson fagnar með stuðningsmönnum ÍBV í leik.
Kári Kristján Kristjánsson fagnar með stuðningsmönnum ÍBV í leik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu og minna fór fyrir góðum handbolta. Eyjavörnin var óárennileg og Petar varði vel í markinu til að byrja með. Eftir tíu mínútna leik byrjuðu FH-ingar að slíta sig frá Eyjamönnum og náðu mest fjögurra marka forskoti.

ÍBV svaraði með því að setja Ívar Bessa Viðarsson fremstan í 5-1 vörn og skelltu í lás varnarlega en sóknin fylgdi ekki með og FH leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 14:11.

Elmar Erlingsson var atvkæðamestur heimamanna með fjögur mörk, þar af tvö úr vítum. Petar Jokanovic varði fimm skot og Pavel Miskevich varði eitt vítakast. Hjá FH var Símon Michael Guðjónsson markahæstur með fjögur mörk og Daníel Freyr Andrésson varði sex skot, þar af eitt vítaskot.

Aron Pálmarsson sækir að Eyjamönnum í Vestmannaeyjum í dag.
Aron Pálmarsson sækir að Eyjamönnum í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og náði að jafna metin í 17:17 þegar um tuttugu mínútur voru eftir. FH náði þó aftur forskotinu og hafði frumkvæðið allt þar til á lokamínútunum ÍBV jafnaði þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Einar Bragi Aðalsteinsson tapaði boltanum illa í næstu sókn og Elmar Erlingsson kom ÍBV yfir þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. En á lokasekúndunum skoraði Jón Bjarni Ólafsson og kom FH í framlengingu.

Framlengingin var í járnum en á lokamínútunni gerðist umdeilt atvik. Petar varði frá Jóhannesi Berg þegar FH var marki yfir og sendi langt fram á Breka Þór Ólafsson sem keyrði niður varnarmann FH en ekkert var dæmt. Daniel Vieira jafnaði svo metin og kom ÍBV í aðra framlengingu og Hafnfirðingar voru alls ekki sáttir.

Dramatíkin var allsráðandi í seinni framlengingunni þar sem Símon Michael Guðjónsson kom FH yfir þegar skammt lifði leiks en Kári Kristján jafnaði og tryggði ÍBV vítakeppni á lokasekúndunni.
ÍBV hafði að lokum betur í vítakeppni og tryggði sér oddaleik í einvíginu eftir magnaðan handboltaleik.

Aron Pálmarsson náði sér ekki á strik og spilaði ekki framlengingarnar og lokamínútur leiksins.  Markmenn liðanna áttu sviðið í dag, Petar Jokanovic varði heil 20 skot og Daníel Andrésson 15, þar af fjögur vítaköst.

Liðin mætast í oddaleik á sunnudaginn í Kaplakrika.

Mikil spenna var í Eyjum í dag
Mikil spenna var í Eyjum í dag Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

ÍBV 37:36 FH opna loka
81. mín. Elmar Erlingsson (ÍBV) brennir af víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert