Tek kannski United-derhúfuna með til öryggis

Björgvin Páll Gústavsson á æfingu fyrir leikina gegn Eistlandi.
Björgvin Páll Gústavsson á æfingu fyrir leikina gegn Eistlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir því eistneska í umspili um sæti á lokamóti heimsmeistaramótsins í Króatíu, Danmörku og Noregi í byrjun næsta árs.

Fyrri leikurinn fer fram í Laugardalshöll klukkan 19.30 í kvöld og seinni leikurinn í Tallinn á laugardag klukkan 15. Sigurvegarinn í einvíginu fer á HM en tapliðið situr eftir með sárt ennið.

Þau mættust fyrst í Laugardalshöll árið 1996 í undankeppni HM 1997 og vann Ísland fyrri leikinn örugglega, 28:19, og þann seinni 30:22. Fóru báðir leikir fram í Laugardalshöll. Þau mættust næst á Ásvöllum í mars árið 2009 í undankeppni EM 2010. Aftur vann Ísland sannfærandi, nú 38:24.

Liðin mættust í Pölva í Eistlandi í sömu undankeppni í júní sama ár. Þá skildu þau jöfn, 25:25, í leik sem er þekktastur fyrir að markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson lék með derhúfu sendiherrans Hannesar Hilmarssonar. Ástæðan var að sólin skein inn um glugga á keppnishöllinni og í augu markvarðarins.

Derhúfan til öryggis

Björgvin Páll Gústavsson, sem vann silfurverðlaun með Hreiðari á Ólympíuleikunum í Peking og mun standa í marki Íslands í umspilsleikjunum, þarf vonandi ekki að glíma við slíkt.

„Það var ákveðinn spiltími síðast og þeir vissu að sólin kæmi inn um gluggann. Nú er leiktíminn annar og keppnisstaðurinn sömuleiðis. Ég tek kannski Manchester United-derhúfuna með til öryggis,“ sagði Björgvin kíminn er hann ræddi við Morgunblaðið fyrir æfingu liðsins í Safamýri.

Viðtalið við Björgvin og lengri umfjöllun um leikinn á nálgast í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert