Þarf mikið að gerast til að klúðra þessu

Snorri Steinn Guðjónsson eldhress í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson eldhress í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fann fyrir því að það var eitthvað í húfi fyrir leik,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson í samtali við mbl.is eftir 25 marka sigur á Eistlandi, 50:25, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á HM, en leikið var í Laugardalshöll.

„Ég fann það strax í byrjun að við vorum mættir. Ég var búinn að finna þetta á æfingum líka. Ég reiknaði samt ekki með þessu. Ég vissi fyrir fram að við værum betri og við ætluðum að vinna þá og vildi fá gott forskot út en ég lagði ekki upp með að þetta yrðu 25 mörk. 

Svo er ekki oft sem maður skorar 50 og ég er ánægður með liðið, hvernig þeir mættu til leiks, voru einbeittir og héldu áfram allan tímann. Við gengum frá leiknum þegar það hefði verið auðvelt að halla sér aftur. Við gerðum það ekki og það gekk allt upp hjá okkur,“ sagði hann.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku báðir mjög vel, en þeir hafa farið á kostum með Magdeburg, besta félagsliði heims, undanfarnar vikur og mánuði. „Mér leið vel með þessa útilínu. Ég hef fylgst með þeim undanfarnar vikur og þeir eru í hörkuformi. Svo var gaman að prófa Viggó á miðjunni.“

Seinni leikurinn fer fram í Tallinn eftir viku og er ljóst að Ísland verður með á HM.

„Nú viljum við fara út, skila góðri frammistöðu og vinna þann leik. Auðvitað þarf mikið að gerast til að klúðra þessu og það væri ævintýralega lélegt.

Við þurfum að fara út og spila leikinn og það væri lélegt að fara út og skila pulsuframmistöðu. Við fáum ekki mikinn tíma saman og hittumst ekki fyrr en í nóvember aftur. Við viljum vinna leikinn og við sjáum hvort ég prófi nýja hluti,“ sagði Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert