Þetta er mjög góð spurning

Hildigunnur Einarsdóttir sækir að marki Hauka.
Hildigunnur Einarsdóttir sækir að marki Hauka. mbl.is/Eyþór Árnason

„Sigurinn kom sem betur fer,“ sagði Valskonan Hildigunnur Einarsdóttir í samtali við mbl.is eftir sigur á Haukum, 28:27, í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handknattleik á Hlíðarenda í dag. 

Valur tekur þar með forystuna í einvíginu, 1:0, en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Liðin eigast næst við á sunnudaginn á Ásvöllum. 

Hvað skilaði sigrinum?

„Þetta er mjög góð spurning, ég þarf að kíkja á það aftur. Það vantaði allan kraft í okkur í 50 mínútur í þessum leik. 

Vörnin var aum og ekki að vinna vel með markverði. Við fengum alltof mikið af hraðaupphlaupum á okkur. 

Við viljum ekki spila svona og þetta mun ekki duga gegn Haukum til að vinna. Þær eru með frábært lið og við þurfum að vera 100 prósent til að klára þetta. 

Sigurinn kom sem betur fer í dag en það er margt sem við þurfum að laga fyrir næsta leik,“ sagði Hildigunnur. 

Elín Rósa Magnúsdóttir sækir að Haukum.
Elín Rósa Magnúsdóttir sækir að Haukum. mbl.is/Eyþór Árnason

Og hvað þarf til að frammistaðan verði betri? 

„Við getum spilað betri vörn. Þó að við séum bara með einn tapaðan leik í vetur hafa leikirnir gegn Haukum verið hörkuleikir. Aldrei búið að vera auðvelt og leikir allan tímann, höfum ekki unnið þær sannfærandi. 

Við vorum ekki að búast við auðveldum leik og vissum að ef við rifum okkur ekki í gang þá færi þetta illa. 

Eitthvað sem við þurfum að laga fyrir næsta leik varðandi vörn og hugarfar.“ 

Sýnir mikinn karakter

Aftur á móti var Hildigunnur sammála því að liðið sýndi mikinn karakter með því að vinna. 

„Algjörlega, þetta sýnir mikinn karakter og hvað við getum gert en það þýðir ekkert að vera svona lengi í gang. Það er ekki í boði ef við ætlum að ná einhverjum titli hérna.“

Tilhlökkun fyrir næsta leik? 

„Við erum spenntar, búnar að vera bíða lengi eftir þessu einvígi. Einhverjir níu dagar á milli undanúrslitanna og úrslita. Þess vegna er pirrandi að hafa ekki mætt betur í þennan leik en þetta. 

Hausinn fer á leikinn bara strax í kvöld. Þetta er ótrúlega skemmtilegt einvígi og gaman að spila við þetta sterka Haukalið. Við erum mjög spenntar fyrir sunnudeginum,“ bætti Hildigunnur við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert