Suárez mun gera þetta aftur

Luis Suárez og Giorgio Chiellini eftir atvikið í leiknum í …
Luis Suárez og Giorgio Chiellini eftir atvikið í leiknum í dag. AFP

Eftir að Luis Suárez, framherji Liverpool, beit Branislav Ivanovic, varnarmann Chelsea, í leik liðanna í apríl 2013  sagði einn þekktasti íþróttasálfræðingur Bretlands að Úrúgvæinn væri líklegur til að endurtaka leikinn.

Það kom á daginn í leik Úrúgvæ gegn Ítalíu í dag eins og greint var frá á mbl.is fyrr í kvöld. 

Sálfræðingurinn, Thomas Fawcett var í ítarlegu viðtali við BBC um þá áráttu íþróttamanna og annarra að bíta. Luis Suárez er langt frá því að vera eini íþróttamaðurinn sem gerst hefur sekur um slíkt.

Frægasta atvikið er þegar hnefaleikakappinn Mike Tyson beit stykki úr eyra Evanders Holyfields og hrækti því í jörðina í bardaga þeirra um heimsmeistaratitilinn í þungavigt árið 1997.

Í rugbyíþróttinni eru nokkur dæmi um  bit. Suður-Afríkumaðurinn Johan le Roux fékk t.d. 18 mánaða bann fyrir að bíta eyra af mótherja sínum frá Nýja-Sjálandi árið 1994 og Englendingurinn Dylan Hartley fékk átta vikna bann fyrir að bíta írskan andstæðing í landsleik fyrir tveimur árum.

Fawcett sagði eftir að hafa skoðað rækilega atvikið með Suárez og Ivanovic. „Þetta er ekki ásetningur - þetta er snöggt viðbragð og tilfinningaþrungið. Hann gerir þetta ósjálfrátt. Bit er yfirleitt til marks um svekkelsi, þetta er neikvætt viðbragð þegar viðkomandi er að missa stjórn á sér. Stór hluti leiksins var tómt svekkelsi frá sjónarhóli Suárez. Hann hafði fengið á sig vítaspyrnu og það gerði útslagið. Hann tók vonbrigðin út á handlegg leikmanns Chelsea."

Suárez var boðið að fara á námskeið í reiðistjórnun eftir atvikið en Fawcett sagði að hann teldi það ekki hafa mikla þýðingu.

„Það hefur afar lítið að segja. Svona lagað er í skapgerð viðkomandi persónu. Ég myndi telja að ef Suárez lendir aftur í sambærilegri stöðu eftir fimm ár muni hann bregðast við á nákvæmlega sama hátt," sagði Fawcett.

Hann hafði heldur betur rétt fyrir sér. En það voru ekki fimm ár, aðeins fjórtán mánuðir!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert