Knattspyrnusamband Úrúgvæ og framherjinn Luis Suárez hafa frest til klukkan 17.00 að brasilískum tíma, eða til klukkan 20 að íslenskum tíma til að svara fyrir hegðun Suárez í leik Úrúgvæ og Ítalíu í D-riðli HM í gær, þegar Suárez beit Giorgio Chiellini varnarmann Ítalíu í öxlina.
Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA staðfesti í gær að mál gegn Suárez og Úrúgvæ sé í undirbúningi og búast má við því að niðurstöður komi úr því fyrir helgi, eða áður en Úrúgvæ og Kólumbía mætast í 16-liða úrslitum HM á laugardag.
„Svona getur gerst í vellinum í leikjum. Við vorum þarna upp við hvorn annan og hann rak öxlina í andlitið á mér og ég fékk líka högg á augað,“ sagði Suárez sér til varnar eftir leikinn í gær.
Margir stuðningsmenn úrúgvæska landsliðsins hafa tekið upp hanskann til varnar Suárez. „Við þurftum á sigri að halda í leiknum, þannig ef maður þarf að slá frá sér til þess að vinna gerir maður það og ef maður þarf að bíta, þá bítur maður,“ sagði Barbara Giordano 26 ára laganemi í Montevideo um mál Suárez.
Aðrir í Úrúgvæ eru þó brjálaðir yfir hegðun leikmannsins. „Þessi drengur getur ekki haft hemil á sér með að bíta og ráðast á fólk. Þetta lætur alla Úrúgvæa líta illa út,“ sagði Luis Lara 52 ára búðareigandi í Montevideo.