Grindvíkingar einum sigri frá úrslitaeinvíginu

DeAndre Kane í baráttu við Halldór Garðar Hermannsson og Urban …
DeAndre Kane í baráttu við Halldór Garðar Hermannsson og Urban Oman í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindavík og Keflavík áttust við í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmóti karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með stórsigri Grindavíkur 96:71. 

Grindavík er því 2:1 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn Val eða Njarðvík. 

Grindvíkingar mættu dýrvitlausir í leikinn og náðu fljótlega undirtökunum. Eftir aðeins tæplega 3 mínútur var stðaðan 10:3 fyrir Grindavík sem ætlaði að hefna fyrir sárt tap í Keflavík í leik 2. 

Keflavík tókst hinsvegar að jafna í stöðunni 19:19 með þriggja stiga körfu frá Halldóri Hermannssyni fyrirliða Keflavíkur. Grindvíkingum tókst að setja niður tvö vítaskot áður en fyrsta leikhluta lauk og leiddu með tveimur stigum 21:19 eftir fyrsta leikhluta. 

Grindvíkingar mættu enn einbeittari í öðrum leikhluta og þá mátti sjá að þeir gulklæddu höfðu æft 3 stiga skotin fyrir leikinn. Setti Grindavík niður 6 þriggja stiga skot í leikhlutanum og samtals 9 í fyrri hálfleik. 

Tólf stigum yfir í hálfleik

Eftri 5 mínútur í öðrum leikhluta var staðan 37:25 fyrir Grindavík, 12 stiga munur.  Keflvíkingar náðu aðeins að vinna niður forskotið en þá mættu Grindvíkingar enn harðari og juku muninn fyrir hálfleik. 

Staðan eftir annan leikhluta 47:35 og leiddi Grindavík með 12 stigum fyrir þriðja leikhluta. 

Stigahæstur í liði Grindavíkur í fyrri hálfleik var Daniel Mortensen með 15 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Í liði Keflavíkur var Halldór Hermannsson atkvæðamestur í fyrri hálfleik með 8 stig, 2 fráköst og eina stoðsendingu. 

Það var mikil harka í þriðja leikhluta og þurftu dómararnir tvisvar sinnum að stöðva stimpingar milli leikmanna. Helsti munurinn á liðunum var sá að þristarnir gjörsamlega láku niður hjá Grindavík á meðan þeir gerðu það ekki hjá Keflavík sem þurftu að hafa mikið fyrir hverju einasta stigi. Þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn orðinn enn meiri eða 15 stig. og leiddi Grindavík eftir þriðja leikhluta 77:62 og útlitið svart fyrir Keflavík. 

Grindavík yfirspilaði Keflavík í fjórða leikhluta

Það þarf lítið að skrifa um fjórða leikhluta annað en það að Grindvíkingar yfirspiluðu Keflavík í fjórða leikhluta. Má segja að lið Keflavíkur hafi bæði kastað inn handklæðinu og brotlent á sama tíma því Grindvíkingar náðu mest 32 stiga forskoti í leikhlutanum í stöðunni 96:64 og unnu að lokum stórsigur 96:71.

Stigahæstur í liði Grindavíkur var Julio De Asisse með 20 stig, 7 fráköst og  2 stoðsendingar. Í liði Keflavíkur var Jaka Brodnik með 19 stig, 4 fráköst og eina stoðsendingu. 

Liðin mætast aftur á sunnudaginn í Reykjanesbæ. 

Sigurður Pétursson með boltann í kvöld.
Sigurður Pétursson með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grindavík 96:71 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert