KÁ, Nóatún og 11-11 sameinast

Stjórnir Kaupfélags Árnesinga, Nóatúns og 11-11 hafa samþykkt að sameina fyrirtækin og mynda keðju 33 verslana á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi frá og með 1. maí undir nafninu Kaupás. Þorsteinn Pálsson framkvæmdastjóri KÁ verður forstjóri nýju verslunarkeðjunnar sem verður hin næststærsta á landinu og er áætluð velta 9 milljarðar króna á ári. Stefnt er að því að nýja félagið fari á almennan hlutabréfamarkað og verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Eftir sem áður munu verslanir hins nýja félags verða reknar undir nöfnum Nóatúns, KÁ og 11-11.

Í tilkynningu er haft eftir Þorsteini Pálssyni framkvæmdastjóra KÁ, að með þessu opnist ný sóknarfæri og þetta sé mikilvægt skref í að mæta vaxandi samkeppni í verslunarrekstri. „Fyrir Kaupfélag Árnesinga er þetta mikilvæg forsenda vaxtar og viðgangs í verslunarrekstri á nýrri öld," er haft eftir Þorsteini. Einar Örn Jónsson framkvæmdastjóri Nóatúns verður formaður stjórnar Kaupáss. Í tilkynningunni er haft eftir honum að þetta sé eðlilegt framhald á farsælu samstarfi Nóatúns og Kaupfélags Árnesinga undanfarin ár. „Árið 1995 hófum við samstarf um sameiginleg innkaup með stofnun Búrs hf. og 1996 sameinuðust Nóatún og KÁ um rekstur 11-11 verslananna. Þetta skapar jafnframt fleiri tækifæri til samstarfs við önnur félög í verslun." Starfsmenn fyrirtækjanna þriggja eru um 850 í 500 stöðugildum. Ekki er gert ráð fyrir fækkun starfsfólks vegna samruna fyrirtækjanna. Forystumenn hins nýja félags hafa kynnt Samkeppnisstofnun og Neytendasamtökunum samruna félaganna. Stefnt er að því að fá nýja fagfjárfesta til liðs við hið nýja félag fljótlega. Jafnframt er stefnt að því að setja hið nýja félag á almennan hlutabréfamarkað og það verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Íslandsbanki hefur annast um ráðgjöf og mun sjá um sölu hlutabréfa. Nóatún velti á síðastliðnu ári 4,4 milljörðum króna, Kaupfélag Árnesinga 2,7 milljörðum og 11-11 um einum milljarði. Alls rekur hið nýja félag 33 verslanir. Þar af rekur KÁ 12 verslanir - á Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vík, Klaustri, Vestmannaeyjum, Goðahrauni, Þorlákshöfn, Hveragerði, Eyrarbakka, Stokkseyri og Kjarval á Selfossi. Nótaún rekur 9 verslanir - í JL-húsinu, Nóatúni, Austurveri, Rofabæ, Mosfellsbæ, Kleifarseli, Furugrund, Hamraborg og á Laugavegi. Þá eru 12 verslanir undir nafni 11-11 - á Skúlagötu, Grensásvegi, Norðurbrún, Mosfellsbæ, Rofabæ, Eddufelli, Funalind, Þverbrekku, Dalshrauni, Hvaleyrarholti, Grafarvogi og Skipholti. Framkvæmdastjóri yfir verslunum KÁ er Sigurður Markússon, framkvæmdastjóri verslana Nóatúns er Matthías Sigurðsson og verslunum 11-11 stýrir Sigurður Teitsson. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs er Bjarki Júlíusson. Verslunarsvið KÁ gengur inn í hið nýja félag, en kaupfélagið mun áfram reka búrekstrardeild sína og ferðaþjónustu auk annarrar starfsemi.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK