Hannes Smárason, sem lét af starfi forstjóra FL Group í dag, sagði við mbl.is nú síðdegis, að í ljósi þess að nýr aðaleigandi hefði komið að félaginu hefði honum þótt eðlilegt að víkja. Jón Sigurðsson, sem verið hefur aðstoðarforstjóri FL Group, tók í dag við forstjórastarfinu.
Sagði Hannes, að þetta hefði alfarið verið sín eigin ákvörðun og að fyrirtækið myndi nú leggja meiri áherslu á að fjárfesta í fasteignum og minnka umsvif á hinum sveiflukennda flug- og ferðamarkaði.
Baugur Group verður stærsti einstaki hluthafi FL Group eftir ýmis viðskipti, sem tilkynnt var um í dag. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group, sagði á blaðamannafundi nú síðdegis, að ákveðið hefði verið að auka hlutafé FL Group um 64 milljarða króna og eiginféð verði 180 milljarðar.
Hann sagði að félagið hefði verið að draga úr markaðsáhættu að undanförnu og verja eiginfjárgrunninn. „Menn munu ganga hægt um gleðinnar dyr í nýjum fjárfestingum heldur velja þær mjög vandlega í framtíðinni," sagði hann.
FL Group keypti í dag hluti í fasteignafélögum fyrir 53,8 milljarða króna
af Baugi Group, þar á meðal Landic Property, sem myndað var við samruna Stoða og dönsku fasteignafélaganna Keops og Atlas.
Félögin munu heyra undir Private Equity svið FL Group, þar sem fyrir eru m.a. fjárfestingar í fasteignaverkefnum í samstarfi við bandaríska fasteignafélagið Bayrock Group auk eignarhlutar í Eik fasteignafélagi. Ákveðið hefur verið að loka starfsstöð FL Group í Danmörku, en þar starfa 5 starfsmenn hjá félaginu. Sú starfssemi verður samþætt við skrifstofu félagsins í London og er liður í því að hagræða í rekstri og minnka rekstrarkostnað félagsins.