Verulega var farið að draga úr nýjum útlánum hjá Glitni mánuðina fyrir hrun. Hins vegar virðist vera sem Baugur og tengd félög hafi verið undanskilin minni áhuga Glitnis á nýjum lánveitingum.
Félagið 101 Chalet var eignarhaldsfélag utan um franskan skíðaskála, en greint var frá lánum til félagsins í Morgunblaðinu í síðustu viku. Á bakvið 101 Chalet stóðu eignarhaldsfélög Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur.
Í fundargerð áhættunefndar Glitnis frá því 27.ágúst 2008 segir að Glitnir fjármagni fyrstu útborgun yfirtökuverðsins fyrir 35% hlut í skíðaskálanum, fyrir alls 6,6 milljónir evra. Á gengi dagsins í dag nemur það 1,1 milljarði króna. 101 Chalet fékk yfirdrátt hjá Glitni fyrir útborguninni. Í áhættunefnd bankans sátu Lárus Welding, Rósant Torfason og Magnús Arngrímsson, en þeim hefur öllum verið stefnt af skilanefnd Glitnis vegna aðild að ákvarðanatöku um óeðlilega fyriirgreiðslu til eigenda bankans.
Glitnir flokkaði 101 Chalet ekki með Baugssamstæðunni, eins og aðrir bankar gerðu. Hefði Glitnir gert það, hefði Baugssamstæðan sprungið á áhættuskuldbindingarmörkum samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins.