Brýn nauðsyn er á siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Það er í hnotskurn niðurstaða 243 blaðsíðna skýrslu vinnuhóps um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna 2008. Umfjöllun hópsins er birt sem viðauki við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Vinnuhópurinn segir að þótt margir einstaklingar hafi gerst sekir um ámælisverða hegðun sé varasamt að einblína á þá. „Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund,“ segir meðal annars í niðurstöðum skýrslunnar.
Vinnuhópurinn telur að styrkja þurfi skilyrði siðferðislegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín og leggja áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflun og þröngri einstaklingshyggju.
Vinnuhópurinn fjallaði um viðskiptasiðferði, stjórnun og eftirlit innan bankanna, starfshætti hjá eftirlitsstofnunum, í stjórnsýslu og hjá eftirlitsstofnunum og loks er leitast við að skýra þá samfélagssýn sem var ríkjandi meðal áhrifamanna í viðskiptalífi og stjórnmálum í aðdraganda bankahrunsins.
Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að starfsháttum og siðferði hefði víða verið ábótavant í íslensku samfélagi. Sú staðreynt væri hluti af margþættum skýringum á því hve illa fór. Það ætti við jafnt í stjórnmálum og viðskiptalífi sem í stjórnsýslu og fjölmiðlum.
Fram kemur það álit að bankastjórar og stjórnir stóru viðskiptabankanna hafi borið meginábyrgð á rekstri fyrirtækjanna gagnvart viðskiptavinum og samfélaginu öllu. Stærstu eigendurnir hafi haft yfirburðastöðu í bönkunum og þeim hafi verið hyglað. Telur vinnuhópurinn að sá hópur sem stýrði bönkunum hafi fallið fyrir nánast öllum þeim freistingum sem á vegi hans urðu. Menn hafi haft nánast takmarkalausan áhuga á eigin hag. Áherslan hafi verið á stærstu eigendur á kostnað þeirra minni.
Sjá nánari umfjöllun um skýrslu vinnuhóps um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankannaí Morgunblaðinu í dag.