Hagnaður hjá Íslandspósti

Íslandspóstur.
Íslandspóstur.

Hagnaður varð af rekstri Íslandspósts hf. á árinu 2010 að fjárhæð tæpar 93 milljónir króna en árið á undan var 92,3 milljóna króna hagnaður á rekstrinum.

Heildartekjur félagsins á síðasta ári námu 6,3 milljörðum króna og drógust saman um 1% frá fyrra ári.  Heildareignir voru 5 milljarðar króna í árslok 2010 og eigið fé nam 2,7 milljörðum króna.  Félagið greiddi 40 milljónir króna í arð til ríkissjóðs á árinu. 

Í tilkynningu frá Íslandspósti segir, að verulegur samdráttur hafi verið í bréfasendingum á undanförnum árum.  Frá hausti 2008 til ársloka 2010 hafi bréfum í einkarétti fækkað um 20%.  Spáð sé áframhaldandi samdrætti og að gera megi ráð fyrir að bréfapósti muni fækka  um allt að 25% til ársins 2015.

Segir fyrirtækið, að meginástæða minnkandi bréfamagns á undanförnum árum sé sú að birting reikninga og yfirlita frá stórnotendum sé í auknum mæli að flytjast yfir á rafrænt form.  Segja megi að það sé hin nýja dreifileið skilaboða og beint framhald af þeirri efnislegu dreifingu, sem Pósturinn hafi sinnt í 230 ár. 

„Það liggur því beint við og er auk þess lagaskylda að Íslandspóstur taki virkan þátt í því að þróa tæknilausnir, sem auðvelda fólki og fyrirtækjum að miðla póstsendingum, hvort heldur sem er á hefðbundinn efnislegan hátt eða rafrænan;  allt eftir því hvað hverjum og einum hentar.  Nú þurfa neytendur að fara á marga staði til þess að skoða rafræna reikninga og önnur rafræn skjöl, t.d. á heimasíður ýmissa fyrirtækja og stofnana og í heimabanka. Íslandspóstur mun á næstu mánuðum kynna nýja þjónustu, sem boðin verður undir vöruheitinu Mappan.  Allir Íslendingar munu fá aðgang að Möppunni og geta þar séð og geymt öll sín rafrænu skjöl.  Mappan mun verða bylting í dreifingu og vistun rafrænna skjala og getur leitt til verulegs hagræðis fyrir bæði sendendur og móttakendur," segir í tilkynningu Íslandspósts.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK