Evran ekki ódýrari í 7 mánuði

Reuters

Gengi krónu hefur styrkst frá miðjum júlí síðastliðnum eftir nær samfellda veikingu frá nóvember á síðasta ári. Raunar hefur evran ekki verið ódýrari í krónum talið frá ofanverðum febrúar, en hún kostar 160 krónur.

Gagnvart körfu helstu viðskiptamynta er gengi krónu svipað og í maíbyrjun eftir ríflega 2% styrkingu frá miðjum júlí. Styrkingin gagnvart evru á sama tímabili nemur hins vegar 3,7%, enda hefur evran gefið verulega eftir gagnvart helstu gjaldmiðlum það sem af er septembermánuði eftir því sem skuldakreppa Grikklands og fleiri Suður-Evrópuríkja hefur magnast, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

„Mikil árstíðasveifla er í gjaldeyrisinnflæði vegna þjónustuviðskipta við útlönd, þar sem tekjur af erlendum ferðamönnum eru til muna mestar á 3. ársfjórðungi. Þetta innflæði skilar sér þar að auki meira og minna beint inn á gjaldeyrismarkað, öfugt við það sem stundum virðist vera raunin með gjaldeyrisinnstreymi frá vöruútflutningi. Hins vegar er nú farið að síga á seinni hluta ferðamannatímans hér á landi og innflæði gjaldeyris vegna ferðamanna fer því hjaðnandi jafnt og þétt næstu vikur og mánuði," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Seðlabankinn hefur frá ágúst í fyrra keypt gjaldeyri af bönkunum í viku hverri, og hefur fjárhæðin numið 1,5 m. evra á viku. Peningastefnunefnd bankans velti því raunar fyrir sér á síðasta vaxtaákvörðunarfundi hvort þessi gjaldeyriskaup hefðu haldið aftur af gengishækkun krónu á fyrri hluta ársins.

„Verður forvitnilegt að sjá hvort það muni haldast í hendur á síðustu mánuðum ársins að velta á millibankamarkaði minnkar að nýju og gengi krónu gefur eftir að nýju samfara minna árstíðabundnu innflæði gjaldeyris."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK