Kaupa Vörð að fullu

Guðmundur Jóhann Jónsson er forstjóri Varðar Trygginga.
Guðmundur Jóhann Jónsson er forstjóri Varðar Trygginga. mbl.is/Frikki

BankNordik keypti 51% hlut í Verði Tryggingum seint á árinu 2009 og var ákvæði í kaupsamningnum sem veitti minnihlutaeigendum - Landsbankanum, SP-Fjármögnun og Byr sparisjóð - sölurétt á 49% hlut í tryggingafélaginu. Minnihlutaeigendurnir hafa nú ákveðið að nýta sér þann rétt og selja 49% eignarhlutinn til BankNordik. 

Í tilkynningu frá BankNordik kemur fram að hins vegar hafi hluthafar ekki komið sér saman um hvað bankinn eigi að greiða fyrir 49% hlutinn en reynt verði að komast að samkomulagi um verð fyrir lok annars ársfjórðungs. Fastlega sé gert ráð fyrir að hluturinn verði keyptur á 1.370-1.520 milljónir króna.

Gerir BankNordik ráð fyrir að nýta sér að Seðlabanki Íslands býður útlendum fjárfestum, sem ætla að fjárfesta á Íslandi, afslátt á kjörum og því verði kaupverðið væntanlega 51-56 milljónir danskra króna. Það svarar til 1.146-1.259 milljóna íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. Þetta verði gert í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands en dagsetning á útboðinu liggur ekki fyrir. Hins vegar sé stefnt að næsta gjaldeyrisútboði Seðlabankans þann 28. mars nk.

Þegar BankNordik (áður Færeyjabanki) keypti hlutinn í Verði árið 2009 kom fram að heildarfjárfesting bankans í Verði Tryggingum væri 1.150 milljónir króna. Gefin yrðu út ný hlutabréf fyrir 700 milljónir króna, þar af 600 milljónir frá BankNordik og 100 milljónir frá öðrum hluthöfum. Jafnframt keypti bankinn hlutabréf frá fyrri hluthöfum fyrir 550 milljónir króna.

Á þessum tíma áttu Landsbankinn, SP-Fjármögnun og Byr sparisjóður 49% hlutinn sem BankNordik er að kaupa nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK