Spá aukinni verðbólgu

Morgunblaðið/Kristinn

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í ágúst frá mánuðinum á undan. Hækkunin kemur í kjölfar 0,7% lækkunar í júlí.

Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga aukast lítillega, úr 4,6% í 4,7%, eftir talsverða lækkun í júlí. Hagstofan birtir VNV fyrir ágúst þann 29. ágúst næstkomandi.

Spá 5% verðhækkun á skóm og fötum

„Eins og jafnan í ágúst hafa útsölulok töluverð áhrif á VNV í næstu mælingu Hagstofunnar. Gerum við þannig ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki um ríflega 5% milli mánaða (0,3% áhrif í VNV).

Útsölulok hafa þar að auki áhrif á aðra liði á borð við húsgögn, heimilisbúnað, tómstundir og menningu. Þá hefur eldsneytisverð hækkað talsvert frá VNV-mælingunni í júlí og hækkar það VNV um 0,15%. Á hinn bóginn koma áhrif styrkingar krónu á undanförnum mánuðum nú fram í ýmsum undirliðum VNV. Má hér t.d. nefna innflutta matvöru og bifreiðar. Einnig gerum við ráð fyrir lítilsháttar lækkun á húsnæðislið vísitölunnar í ágúst,“ segir í verðbólguspá greiningar Íslandsbanka.

Það sem eftir er árs gerir greining Íslandsbanka ráð fyrir litlum breytingum á 12 mánaða takti VNV, og spáir því að verðbólga mælist á bilinu 4,6%-4,7% út árið.

„Teljum við að VNV muni hækka um 0,5% í september og um 0,3% í október. Útsölulok munu vega til hækkunar vísitölunnar í september, og venjubundin hausthækkun skóla- og námskeiðsgjalda sem og á afþreyingu af ýmsu tagi hefur einnig áhrif í mánuðinum. Í október má svo eiga von á talsverðri hækkun flugfargjalda eins og jafnan gerist í þeim mánuði.

Á næsta ári spáum við því að verðbólga reynist 4,1% að meðaltali. Gerum við þar ráð fyrir að gengi krónu veikist þegar kemur fram á veturinn, auk þess sem launaliður kjarasamninga verður væntanlega laus til endurskoðunar á fyrsta fjórðungi næsta árs og gætu laun því hækkað um nokkru hærri prósentu en þau 3,25% sem núgildandi samningar hljóða upp á.

Auk þess gerum við ráð fyrir að húsnæðisliður VNV hækki talsvert næstu misserin, enda hefur meira líf verið að færast í íbúðamarkað undanfarið. Spáum við að verðbólgan mælist 3,8% í lok ársins 2013 og verði raunar fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans næstu tvö árin,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK