„Við erum sennilega með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi og mestu afköstin. Verðmætasköpun íslenskra sjómanna er að meðaltali 50% meiri en þeirra norsku til dæmis.
Fiskveiðar standa undir lífskjörum okkar og því er illskiljanlegt að við séum að hverfa aftur til baka í smáum skerfum í átt að óhagkvæmu miðstjórnarkerfi, einmitt þegar við þurfum á hagvexti að halda til þess að geta staðið í skilum með erlend lán,“ segir Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
„Okkar hagkvæma og vel skipulagða fiskveiðikerfi er í bráðri hættu,“ segir hann í samtali í Morgunblaðinu í dag.
Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um fiskveiðar í Öskju í Háskóla Íslands í dag og hefst hún klukkan eitt. Fiskveiðar verða skoðaðar frá sjónarhóli sjálfbærni og arðsemi. Þar verða fjölmargir fyrirlesarar, svo sem Þráinn, og ýmsir munu deila með fundinum viðbrögðum sínum við erindunum, þar á meðal Brian Carney, ritstjóri Wall Street Journal Europe.