Það er óðs manns æði að skattleggja íslenskan sjávarútveg umfram það sem er gert erlendis. Þau veiðigjöld sem stjórnvöld leggja á íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi veikja samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu og ýta landinu út af arðbærum mörkuðum sem leiðir að endingu til lægra útflutningsverðs.
Sérstakir skattar á sjávarútvegsfyrirtæki valda því að hagvöxtur verður minni en ella og að sjávarútvegsfyrirtæki verða síður í stakk búin til að keppa við erlend fyrirtæki í sjávarútvegi. Ríkið tapar einnig, til lengri tíma litið, vegna þess að skatttekjur munu dragast saman, ólíkt því sem oft er haldið fram.
Þetta kom fram í máli Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, á málþingi sem haldið var í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors í hátíðasal Háskóla Íslands á mánudaginn og fjallað er um í fréttaskýringu í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt stóðu að málþinginu en aðalviðfangsefni þess var kvótakerfi og veiðigjald.
Prófessor Ragnar gagnrýndi tvær algengar villur. Í fyrsta lagi að arðurinn í fiskveiðum skapaðist af auðlindinni einni og í öðru lagi að auðlindaskattur, eða veiðigjald á útgerð, væri á einhvern hátt hagkvæmari skattur en aðrir skattar og truflaði ekki verðmætasköpun í greininni. Hann sagði að auðlindin væri aðeins einn af fjölmörgum mikilvægum þáttum sem þyrfti að hafa í huga.