Það þarf að skoða það í fullri alvöru að sameina Íbúðalánasjóð og Landsbankann, eða setja slitastjórn yfir Íbúðalánasjóð. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is. Guðlaugur segir sjóðinn vera eins og opinn krana og nú þegar sé búið að setja yfir 40 milljarða í hann. Segir hann að líklega þurfi að setja tugi milljarða inn í sjóðinn til viðbótar ef ekki komi til neinna breytinga.
„Sú félagslega aðstoð sem góð sátt er um að veita, við þurfum að veita hana með öðrum hætti en að vera í áhættusömum bankarekstri,“ segir Guðlaugur, en hann segir að með þátttöku Íslands í evrópska efnahagssvæðinu sé okkur þröngur stakkur búinn til að vera með ríkisrekinn húsnæðisbanka.
Í morgun fór Fjármálaeftirlitið yfir stöðu Íbúðalánasjóðs á fundi fjárlaganefndar. Guðlaugur segir Íbúðalánasjóð vera bleika fílinn í ríkisfjármálum sem ekki sé tekið á. „Það þarf að skrúfa fyrir greiðslur skattgreiðenda til Íbúðalánasjóðs og þetta er mjög blóðugt meðan við reynum að skrapa saman hverri krónu til að minnka sparnaðinn í heilbrigðiskerfinu,“ segir Guðlaugur og bætir við að alltaf sé verið að tala um smáar upphæðir í samanburði við Íbúðalánasjóðs þegar komi að hagræðingarhugmyndum.