Í dag var sagt frá því að Brim hefði sagt upp öllum 40 skipverjum á Brimnesi RE 27. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir í samtali við mbl.is að bent hafi verið á að veiðigjaldið hafi lent misharkalega á útgerðum og það til viðbótar við aðra samverkandi þætti hafi orðið til þess að ákvörðun um uppsagnir var tekin. „Við erum búin að vera að benda á það lengi að það eru ákveðnar einingar í sjávarútveginum sem lenda mjög illa í þessu, bæði rekstrareiningar og fyrirtæki,“ segir Guðmundur.
Hann segist ekki vita til þess að neitt sé verið að gera í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til að breyta rekstrarskilyrðum útgerðanna. Í ljósi þess og þar sem ekki sé hægt að gera neinar almennilegar rekstraráætlanir hafi þurft að fara þessa leið. Hann segir stór fyrirtæki eins og Brim þurfa plön til framtíðar. Það þurfi meðal annars að huga að innkaupum á umbúðum, réttum veiðarfærum, semja við söluaðila og markaðssetja vöruna gagnvart neytendum. Þá séu skipverjar með þriggja til sex mánaða fyrirvara og því þurfi að fara í aðgerðir með smá-fyrirvara. „Það halda allir að útgerð sé djók,“ segir Guðmundur, en svo sé sannarlega ekki raunin.
Fleiri atriði en veiðigjaldið eru tilgreind sem ástæður uppsagnarinnar. Í tilkynningu á heimasíðu Brims kemur fram að undanfarin ár hafi ekki verið hægt að ræða við hagsmunafélög sjómanna og núverandi kjarasamningar gefi hvorki tækifæri á að þróa fullvinnslu um borð né að þessi skip geti nýtt aukaafurðir eins og landvinnslan er að gera í dag með arðbærum hætti.