Tímir ekki að selja Verðlistann

Erla er mögulega hætt við að hætta.
Erla er mögulega hætt við að hætta. Sigurgeir Sigurðsson

„Ég tími ekki að selja. Síminn hefur ekki stoppað og fólk spyr hvort við ætlum virkilega að hætta,“ segir Erla Wigelund Kristjánsdóttir, eigandi Verðlistans, sem staðið hefur þar vaktina í tæp fimmtíu ár.

Erla setti húsnæðið á sölu í haust og segir að fjölmörg tilboð hafi borist, en auk verslunarinnar á Erla íbúðina fyrir ofan, þar sem hún hefur búið frá árinu 1980. „Þetta er allt óákveðið og það getur bara vel verið að ég hætti ekkert,“ segir hún. Aðspurð hvort hana verði þá enn að finna á bak við búðarborðið segir hún líklegra að að dóttir sín og barnabarn muni sjá um reksturinn „en ég verð þeim innan handar á meðan ég stend í lappirnar,“ segir Erla sem verður 86 ára gömul á gamlársdag.

Erfitt að búa í húsinu en vera ekki með búðina

Nokkur tilboð segir hún ekki hafa verið viðunandi vegna fjárhæðar eða afhendingartíma. „Ég er til dæmis ekki tilbúin að hætta núna fyrsta nóvember. Labba héðan út en búa samt á loftinu, það yrði erfitt,“ segir hún og bætir við að hún heyri það upp til sín þegar búðarhurðinni er skellt aftur. „Ég ætla að minnsta kosti að fara úr íbúðinni áður en ég sel,“ segir hún.

„Það er hringt utan að landi og alls staðar úr bænum. Við erum búin að fá svo rosalega margar kvartanir. Ég er því svolítið að velta þessu fyrir mér,“ segir hún og bætir þó við að málið muni líklega skýrast í næstu viku en í dag fékk hún tilboð í alla eignina. „Við eigum svo mikið af fastakúnnum og núna eru dætur fyrri kúnna farnar að koma og versla,“ segir Erla. „Það er bara þó nokkuð að gera og við erum ánægð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK