Flýtibílaþjónusta opnar í bílakjallaranum á Höfðatorgi upp úr áramótum. Til þess að byrja með verður þar pláss fyrir fimmtán til tuttugu bíla og notendur greiða tímagjald ásamt hóflegu mánaðargjaldi.
Höfðatorg er í eigu fasteignafélagsins FAST-1 slhf. og segir Gísli Reynisson, framkvæmdastjóri félagsins, að um tilraunaverkefni sé að ræða sem framkvæmt verði með lágmarkstilkostnaði til að geta boðið upp á þjónustuna á góðu verði. Verkefnið er unnið í samstarfi við bílaleigu á Íslandi sem Gísli segir ótímabært að nefna. Hann reiknar með að starfsmenn Höfðatorgs og nærliggjandi fyrirtækja komi til með að nota bílana en þjónustan verður þó einnig opin fyrir aðra.
Þremur bílaleigum sem höfðu áhuga á að setja upp flýtibílaþjónustu í samstarfi við Reykjavíkurborg var fyrir skömmu bent á að hafa samband við einkaaðila sem mögulega gæti útvegað þeim aðstöðu þar sem Reykjavíkurborg ætti erfitt með að aðstoða þær allar.
Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, segir að unnið hafi verið að verkefninu að fullum krafti að undanförnu og var skoðaður sá möguleiki að Reykjavíkurborg myndi í samstarfi við nokkur fyrirtæki koma upp flýtibílakerfi í Reykjavík. „Við fengum hingað sérfræðing frá Gautaborg og héldum fundi með hugsanlegum rekstraraðilum ásamt hagsmunaaðilum líkt og leigubílstjórum en helsti samstarfsaðili okkar var Landsbankinn,“ segir hann.
Hann bendir þó á að Reykjavíkurborg sé í nokkuð annarri stöðu en fyrirtækin þar sem hún sé, auk þess að vera væntanlegur notandi, umráðandi borgarlandsins og hugsanlegra stæða fyrir starfsemina. „Helsta ástæða þess að þetta fór ekki lengra á sínum tíma var að bílaleigurnar töldu að það fylgdi því of mikill kostnaður að kaupa gagnagrunn og setja búnað í bíla fyrir svona lítinn markað eins og Reykjavík,“ segir hann en hugsunin er að hafa búnaðinn í bílunum þannig að bíllykill sé óþarfur heldur væri hægt að opna bílinn með farsímanum. „Þú einfaldlega skráir þig inn og borgar eftir notkun,“ segir hann.
Síðan þá hefur hins vegar orðið heilmikil þróun í búnaðinum og óskaði einn aðili fyrir skömmu eftir aðstöðu á landi Reykjavíkurborgar til að koma upp flýtibílaþjónustu. „Við vorum til í það og vildum gera við þá samning um að fara í einhverskonar tilraunarverkefni. En á meðan það var í gangi kom annar og sá þriðji og við sem opinbert fyrirtæki þurftum að setja það í ákveðið ferli,“ segir Hrólfur. Í framhaldi af því samþykkti borgarráð í síðustu viku að fela starfshópi að skoða hvernig borgin gæti komið upp flýtihjólaleigum og taka jafnframt þetta verkefni til skoðunar og koma að lokum með tillögur um hvernig þessu verði best fyrir komið.
Aðspurður segir Hrólfur að leigubílstjórar hafi haft áhyggjur af mögulegri samkeppni við flýtibílaþjónustur. „Við höfum hins vegar bent á að þetta sé allt annað. Þú tekur til dæmis flýtibíl þegar þú þarft að fara að versla eða í bíó. Fólk getur þannig sleppt einkabílnum og tekið leigubíla og flýtibíla. Þannig getur þú sparað um fimmtíu þúsund krónur á mánuði og farið til Spánar fyrir bílinn í staðinn,“ segir hann og bætir við að þetta sé þróunin í borgum víðs vegar um heiminn. „Einkabílunum fækkar með þessu og það er auðvitað gríðarlega eftirsóknarvert fyrir allar borgir,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Gæti fækkað bílum um tugþúsundir
Frétt mbl.is: Bíllausir með 80% meiri greiðslugetu