Flýtibílar gætu fækkað bílum um tugþúsundir

Með flýtibílum væri hægt að draga töluvert úr fjölda bíla …
Með flýtibílum væri hægt að draga töluvert úr fjölda bíla á götum borgarinnar, ef miðað er við erlenda reynslu. Ómar Óskarsson

Með því að koma upp skilvirku og góðu flýtibílakerfi á höfuðborgarsvæðinu væri hægt að fækka bílum í umferðinni um tugþúsundir. Þetta gæti meðal annars dregið úr mengun, minnkað umferðarþvögur og dregið úr kostnaði við umferðarmannvirki. Þá gæti þetta sparað hverri fjölskyldu, sem í dag notast við tvær bifreiðar, rúmlega milljón krónur á ári.

8-10% af ferðum í Sviss með flýtibílum

Fyrr í vikunni sagði mbl.is frá því að Hertz væri að skoða möguleika á flýtibílakerfi hér á landi. Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum, hefur á síðustu árum mikið skoðað svipaðar lausnir sem þessar og í samtali við mbl.is segir hann að reynslan erlendis sýni að einn slíkur bíll geti fækkað venjulegum einkabílum um fjóra til átta.

Finnur bendir á að í Sviss sé um 8-10% af heildarfjölda bílferða með þessu sniði. Ef hægt er að yfirfæra þó ekki væri nema lítinn hluta þess yfir á fækkun bíla, þá má sjá að bílum gæti fækkað um þúsundir, ef ekki tugþúsundir á götum borgarinnar með þessari aðferð.

Rekstur smábíls um 1,2 til 1,4 milljónir á ári

Kostnaður við að reka venjulegan smábíl er að sögn Finns um 1,2 til 1,4 milljónir á ári. Fyrir þá upphæð getur fólk keypt sér árskort í strætó, tekið leigubíl 80 sinnum, leigt skyndibíl í 60 daga í miðri viku og 10 helgar yfir árið, en samt er það allt saman enn ódýrara en að eiga smábíl.

Landsbankinn tók skref í þessa átt á síðasta ári þegar hann kynnti samgöngusamning bankans, en meðfram því gerði bankinn samning við Höldur bílaleigu um einskonar flýtibílaleið, en þar pantar starfsmaður bíl á netinu og bílaleigan lofar að afhenda hann innan 20 mínútna á þann stað innan höfuðborgarinnar sem óskað er eftir.

Geta leigt bíl í 60 daga og 10 helgar fyrir minni pening 

Með þessu fær fólk möguleika á að velja samgöngumáta í hvert sinn sem það ferðast, en Finnur segir að með því kaupa bíl, þá sé fólk búið að velja að nota ekki hjól eða strætó þar sem fjárfestingin sé svo mikil. „Við erum að segja að þú eigir að geta valið hvað þú viljir gera í hvert skipti sem þú ert að ferðast.“

Finnur tekur fram að hann geri ekki ráð fyrir því að flýtibílar muni leysa einkabílinn af hólmi alfarið. Auðvitað séu einhverjir sem sjái tækifæri í að taka upp einkabíllausann lífsstíl með þessu, en almennt gagnist þetta best þeim sem vilja fækka úr tveimur bílum í einn en hafa hingað til átt erfitt með það þar sem fólk vilji geta skroppið á vinnutíma. „Með þessu gefum við fólki raunveruleika í samgöngumálum án þess að farið sé í stríð við einkabílinn,“ segir Finnur.

„Ekki að tala um að fólk eigi að losa sig við alla bíla“

Hann bendir á að með því að nota skyndibíl fari fólk að skipuleggja sig betur, það hjólar meira og sparar sérstaklega pening með að vera hagsýnt í samgöngumálum. Það sem skipti þó miklu máli í þessu samhengi sé að aðgengi að bíl sé með skömmum fyrirvara og nefnir í því samhengi að fólk þurfi að geta pantað bíl með um 30-60 mínútna fyrirvara.„Við erum ekki að tala um að fólk eigi að losa sig við alla bíla á heimilinu, en það er óþarfi að eiga bíl númer tvö til þess að skjótast í vinnuna,“ segir Finnur.

Aðspurður hvað hann telji að marga bíla þurfi til þess að byggja upp skyndibílakerfi á höfuðborgarsvæðinu segir Finnur það ekki þurfa að vera mikið umfram tíu bíla. Stærsti kostnaðurinn sé að byggja upp tölvukerfið og grunnstoðirnar í kringum kerfið. Eftir það sé hægt að bæta við bílum eftir þörf og það sé ekki svo mikill kostnaður hlutfallslega. Til að byrja með verði væntanlega horft til heitra svæða eins og miðbæjarins, Borgartúnsins, Landspítalans og háskólasvæðisins, en í framhaldinu verði hægt að bæta við kerfið.

Hjálpar til við bílastæðavanda

Eins og fram kom hér að ofan sýnir reynslan erlendis að hægt sé að fækka bílum í umferðinni töluvert með flýtibílalausnum. Finnur segir að á þessum heitu reitum sé oft mikill bílastæðavandi og með svona lausn sé hægt að vinna á þeim vanda að miklu leyti.

Hann segir að með því að fækka þeim sem keyri í bílum til og frá vinnu eða náms sé mikill ávinningur strax kominn í formi færri bílastæða og umgjarðar fyrir bílana.

Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum, hefur skoðað …
Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum, hefur skoðað flýtibíla mikið.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK