„Á fertugsafmæli mínu í mars 2007 sat ég á toppi heimsins og aðeins 250 manns í honum voru ríkari en ég. Ég lánaði forsetum þoturnar mínar, umgekkst Hollywood stjörnur og fjölmiðlamógúla og var frægur á Íslandi sem fyrsti milljarðamæringur landsins,“ ritar Björgólfur Thor í nýrri bók sinni.
Til þess að fagna þessum áfanga stakk eiginkona hans, Kristín Ólafsdóttir, upp á því að njóta dagsins með vinum og fjölskyldumeðlimum sem höfðu hjálpað honum að komast á þennan stað. Þegar sú hugmynd hafði grafið um sig voru takmörkin engin. Þannig hefst lýsing Björgólfs á hinu margrómaða fertugsafmæli á Jamaíka.
Þau áttu góðar minningar frá eyjunni og ákváðu því að halda veisluna þar. „Við fengum líka þá brjáluðu hugmynd að hafa þetta sem óvænta veislu - fyrir gestina í staðinn fyrir afmælisstrákinn,“ segir hann. Þau leigðu Boeing 767 þotu sem einungis var búin fyrsta farrými og sóttu gestina á tveimur stöðum - í Reykjavík og London. Það eina sem þeir vissu var að farið yrði á fimmtudegi og komið heim á mánudagsmorgni. Þá var ekki boðið upp á áfengi í vélinni til þess að veislugestirnir yrðu fullir orku þegar á áfangastaðinn væri komið. Allir í vélinni voru góðir vinir þeirra og segir Björgólfur að flestir þeirra hefðu aldrei átt efni á að gera neitt sem þetta sjálfir.
Á laugardeginum voru allir beðnir um að klæða sig upp og veislan hófst. Fyrst var óvænt sýnd nokkurs konar heimildarmynd sem Kristín hafði útbúið þar sem viðtöl höfðu verið tekin við vini og fjölskyldumeðlimi Björgólfs. „Í lokin var meira að segja kveðja frá James Bond -fyrirmynd minni í æsku - Sean Connery, sem ég hafði hitt tvisvar.“
Tveir listamenn tróðu síðar upp á ströndinni, Jamiroquai og Ziggy Marley en Björgólfur segir þann fyrrnefnda hafa sagt að loknu atriðinu að hann hefði aldrei spilað í jafn fallegu umhverfi. Síðar mætti 50 Cent á svið í hvítum kastala sem skreyttur hafði verið að Hollywood fyrirmynd.
„Á þessum tíma hefði ég ekki trúað því ef einhver hefði sagt mér að innan átján mánaða myndi ég tapa 99 prósent af þeim fjórum milljörðum sem ég þá átti og að sjö bankar myndu reyna að knýja mig í gjaldþrot.“
Frétt mbl.is: Kom á milli Björgólfsf og Claudiu
Frétt mbl.is: Egóið leiddi hann til bankakaupa
Frétt mbl.is: „Ég er samningafíkill“