Átta starfsmönnum fjölmiðlafyrirtækisins 365 var sagt upp í gær. Forstjóri 365 segir uppsagnirnar lið í því að hagræða í rekstri og einfalda skipulag. Fólkið starfaði á sölu-, þjónustu- og fjármálasviði.
Mikil uppstokkun hefur átt sér stað á 365 miðlum eftir að Sævar Freyr Þráinsson tók við sem forstjóri og Kristín Þorsteinsdóttir gerðist útgáfustjóri. Í lok október var tíu fastráðnum starfsmönnum sagt upp auk átta verktaka og í september enn fleiri starfsmönnum sagt upp störfum. Sævar segir að ekki sé von á frekari uppsögnum og gerir hann ráð fyrir að nýtt skipulag fyrirtækisins verði kynnt snemma á nýju ári.
Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna 365 miðla og Tals undir merki 365 fyrr í mánuðinum. Af því tilefni var haft eftir Sævari í tilkynningu að í kjölfar sameiningarinnar yrði unnt að bjóða nýjungar, sem ekki hefðu sést áður á fjarskiptamarkaðnum. Samkeppniseftirlitið setti þó skilyrði fyrir sameiningunni og verður m.a. óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á þjónustu á fjölmiðlamarkaði að fjarskiptaþjónusta fylgi með í kaupunum.
Samruni Tals og 365 skilyrðum háð
Enn frekari uppstokkun hjá 365