Vivaldi, fyrsti vafrinn sem kalla má íslenskan, fer í loftið í dag. Jón von Tetzchner, stofnandi Operu, hannaði hann og segist hafa haldið áfram að byggja þar sem núverandi stjórnendur Operu beygðu af brautinni.
Jón stofnaði Operu árið 1994 og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins til ársins 2010 þegar hann hætti störfum þar sem hann deildi að eigin sögn ekki sömu framtíðarsýn og ráðandi hluthafar. Hann var þó stjórnendum fyrirtækisins innan handar í eitt ár eða þar til leiðir skildu endanlega á árinu 2011.
Hann segist stoltur af því að hafa átt þátt í að byggja upp vafra sem náð hefur þessari útbreiðslu en um 50 milljónir manna nota Operu vafrann í dag á PC tölvum en um 350 milljónir manna þegar tekið er tillit til allrar notkunar að sögn Jóns. „En eftir að ég hætti fer Opera í aðra átt og ég sá að margir notendur voru nánast að gráti komnir yfir því að forritið sem þeir höfðu lengi notað virkaði ekki sem skyldi,“ segir Jón. „Þetta kann að hljóma undarlega en fólk venst því að hafa á hlutina á ákveðinn hátt og það er vont þegar því er bara kastað á brott,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið í þessum hópi notenda. „Þetta er ástæðan fyrir því að um 20 milljónir manna hafa ekki uppfært vefinn hjá sér í um þrjú ár og eru ennþá að nota gamla vafrann,“ segir hann.
Hann segir Operu hafa farið í sömu átt og langflestir aðrir vafrar og einfaldað hönnunina. „En hvað með þá sem vilja eitthvað annað?“ spyr Jón. „Vafra sem getur gert aðeins meira. Það var ákveðin hugsjón sem Opera hafði og hún er horfin,“ segir hann. „Þá hugsaði ég; Fyrst það er enginn annar að gera þetta, hvers vegna ætti ég ekki að gera það. Þaðan kom hugmyndin.“
Um 25 manna hópur hefur nú unnið að nýja vafranum er kallast Vivaldi en meirihluti þeirra starfaði áður hjá Operu. „Við ákváðum að byggja vafra fyrir okkur sjálfa og alla hina sem við lítum á sem vini okkar og voru að nota Operu áður og langar í öðruvísi vafra,“ segir Jón.
Fyrsta útgáfan lítur dagsins ljós í dag en Jón tekur þó fram að vafrinn sé ennþá í þróun og verði það áfram þrátt fyrir að fyrsta endanlega útgáfan hafi verið sett fram. Hann segist þó sjálfur hafa notað vafrann í fleiri mánuði auk þess sem aðrir hafi fengið að prófa hann og verið hrifnir.
Aðspurður hvað sé ólíkt nýja vafranum og örðum sem þegar eru til segir hann ýmisleg aukaatriði og viðbætur vega þyngst. Nefnir hann að fleiri gluggar eða flipar opnast sjálfkrafa í vafranum og koma aftur upp þótt vafranum sé lokað. Þá sé hægt að hafa fleiri flipa opna, undir hverjum glugga, þannig að hægt er á auðveldan hátt að vera með fleiri síður opnar í einu.
Hann nefnir einnig að áhersla sé lögð á lyklaborðsskipanir og t.a.m. sé hægt að nota z og x hnappana á lyklaborðinu til þess að fletta fram og til baka. Þá sé hægt að breyta vafranum innihaldslega og hanna hann þannig sjálfur. „Þetta er búið til fyrir fólk sem vill leika sér,“ segir Jón.
Heiti vafranna tveggja „Opera“ og „Vivaldi“ minna óneitanlega hvort á annað, enda bæði með sterka tónlistartengingu. Hann segir að ekki sé um stríðni að ræða þótt síðarnefndi vafrinn sé að fylgja sömu uppskrift og Opera gerði í upphafi. „Við vildum stutt nafn sem þýðir það sama á mismunandi tungumálum. Þannig fundum við Operu og eins var það með Vivaldi,“ segir Jón. „Við höfum ekkert á móti Operu. Þeir eru að fara í aðra átt en ég hefði viljað, en ég óska þeim góðs gengis,“ segir hann.
Jón hefur fulla trú á að Vivaldi geti orðið stór aðili á markaðnum. „Hversu stór vitum við ekki en þó er ákveðinn markhópur að kalla á vöru sem þessa. Við þurfum einhverjar milljónir notenda til þess að þetta gangi upp og við höfum fulla trú á því að það takist,“ segir hann. Lögð verður áhersla á svokallaða „word of mouth“ markaðssetningu eða „orð af orði“ þar sem treyst verður á að fólk sem kann að meta vafrann láti vini sína vita. „Við höfum komið svona fyrirtæki upp áður og þetta er það sem við kunnum. Svona hafa langflest stóru fyrirtækin á Internetinu byggt sig upp,“ segir Jón.
Vivaldi verður hýstur hjá Thor Data Center í Hafnafirði og bendir Jón á að stærstur hluti starfsfólksins sé á Íslandi. „Mér finnst skemmtilegt að við séum að byggja þetta upp hér á landi og eins að við séum að hýsa vafrann hér. Þetta er í fyrsta skipti sem eitthvað er til sem hægt er að kalla íslenskan vafra,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Hættur að fjárfesta í bili