Holskefla af óánægðum notendum

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla. mbl.is/Golli

„Við fengum í fyrstu yfir okkur holskeflu af óánægðum notendum sem voru mjög ósáttir við breytingarnar. Það var svolítið erfitt fyrir okkur að eiga við. Þó svo að þetta sé aðeins lítil prósenta, bara þúsund manns, að þá er það ansi hávært fyrir okkur þegar við erum á Íslandi,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri, tölvuleikjaframleiðandans Plain Vanilla sem gefur út Quizup leikinn.

Fyrir um mánuði síðan var gefin út ný útgáfa af QuizUp spurn­inga­leikn­um, sem er sá stærsti sinn­ar teg­und­ar í heim­in­um. Hann var endurhannaður og færður í átt að samfélagsmiðlum þar sem fólk getur tengst í gegnum áhugamál og eignast nýja vini.

Þorsteinn segir fyrrnefndar óánægjuraddir hafa hljóðnað í dag og vísar til svokallaðra „Facebook-áhrifa“ þar sem fólk stofnar gjarnan mótmælasíður og lætur í sér heyra vegna smávægilegra breytinga. „Fólk er í eðli sínu vanafast og við breyttum ansi miklu í einni atrennu,“ segir Þorsteinn léttur.

„Í dag erum við hins vegar ánægð að sjá að tölur yfir það hversu lengi fólk helst inni í leiknum eru margfalt betri en þær voru. Við erum að sjá staðfestingu á okkar tilgátu um að það myndi auka viðloðun að færa leikinn meira í átt að samfélagsmiðlum.“

Ræða um röntgen myndir

Þorsteinn segir bardagann í tölvuleikjabransanum einmitt snúa að því. Að fá fólk til þess að halda áfram að spila leikinn. „Þú getur verið með brjálæðislega vinsælan leik en það munu alltaf koma nýir og nýir. Það er til dæmis enginn að spila Angry birds í dag,“ segir hann. „Það fá hins vegar færri leið á Facebook eða Instagram eftir mánuð. Fólk helst mun lengur í því.“

Hann segir leikjaframleiðendur takast á við þetta með mismunandi hætti og t.d. fara út í það að búa sífellt til nýja leiki. „Vegna þess að Quizup er sérstakur hvað öll þessi áhugamál varðar ákváðum við að fara þessa leið og búa til samfélagsmiðil í kringum það.“ 

Þorsteinn bendir á að gaman sé að fylgjast með líflegum umræðum í leiknum og nefnir hóp í kringum vinsælu þáttaröðina og bækurnar Game of Thrones þar sem fólk skiptist á að deila myndum og tala um þættina; rífast og rökræða. Þá nefnir hann einnig „Medicine“ hóp þar sem læknar eru að deila röntgen myndum og ræða um hvernig best sé að lesa út úr þeim.

Í gær var leikurinn gefinn út fyrir Windows-stýrikerfi, sem notað er í Nokia símum, og er því nú að finna bæði þar, í Appstore og Playstore. Þorsteinn segir þetta vera mikið gleðiefni þótt vissulega sé um minnsta hópinn af þessu þrennu að ræða.

Kína er tekjustofninn

Notendur Quizup utan Kína eru í dag yfir 33 milljónir talsins og að sögn Þorsteins bætast um 50 þúsund nýir í hópinn á degi hverjum. Þess fyrir utan eru notendur í Kína einnig orðnir um 30 milljónir.

Þessi árangur hefur náðst á einungis tveimur mánuðum þar sem leikurinn var gefinn þar út um miðjan apríl. Starfsemin í Kína er í raun alveg aðskilin þar sem leikurinn er öðruvísi hannaður og kínverskir notendur spila ekki við notendur utan landsins. Þar var leikurinn gefinn út í samvinnu við leikj­aris­ann Tencent, sem einnig er fjárfestir í Plain Vanilla.

Einungis nokkrar klukkustundir liðu frá því að leikurinn kom út í Kína og þar til hann var orðinn vinsælasti leikurinn í kínversku Appstore. Þar sat hann í efsta sæti í tvær vikur.

„Það er alveg ótrúlegt að þeir séu strax komnir í sömu notendatölur og við. Þetta er mjög skemmtilegur markaður,“ segir Þorsteinn. Líkt og áður segir er leikurinn öðruvísi uppbyggður í Kína þar sem minni áhersla er lögð á samfélagsmiðla-hlutann. Áherslan er aftur á móti lögð á að búa til fjármagn í gegnum notendurna sjálfa með því að selja alls konar aukahluti í leiknum. Að sögn Þorsteins er Kínamarkaðurinn því meiri tekjustofn fyrir fyrirtækið.

Aðspurður hvort einhverra nýjunga sé að vænta frá fyrirtækinu segir Þorsteinn að mikið af skemmtilegum breytingum séu á döfinni. Ítarlegri upplýsingar vildi hann þó ekki veita en sagði að áframhaldið myndi alltaf snúast um það að vinna með notendum.

Skrifstofur Plain Vanilla.
Skrifstofur Plain Vanilla. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Endurbætt útgáfa Quizup.
Endurbætt útgáfa Quizup.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka