Hlutabréfamarkaðir í Lundúnum, Parísarborg og Frankfurt hafa hríðfallið frá því að þeir opnuðu í morgun. Verðhrunið á kínverskum hlutabréfamörkuðum hefur smitast yfir til Evrópu og óttast fjárfestar að áhrifanna muni jafnframt gæta í Bandaríkjunum þegar markaðir opna þar eftir hádegi.
FTSE 100 hlutabréfavísitalan í Lundúnum lækkaði um 2,6% í morgun, en markaðir í Frakklandi og Þýskalandi féllu um næstum því 3%.
Algjört verðhrun varð á kínverskum hlutabréfamarkaði í nótt. Shanghai Composite hlutabréfavísitalan hríðféll til að mynda um 8,5% og hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi í átta ár.
Kínversk stjórnvöld reyndu að hughreysta óttaslegna fjárfesta, án árangurs, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins. Þau hafa leyft stærstu lífeyrissjóðum landsins, sem eru allir í ríkiseigu, að fjárfesta á hlutabréfamarkaðinum.
Að auki hefur olíuverð lækkað umtalsvert á seinustu dögum. Hefur það ekki verið lægra í sex ár.
David Madden, markaðsgreinandi hjá IG, segir að hlutabréfamarkaðir séu um þessar mundir á mikilli niðurleið. „Ég held að meiri óvissa sé framundan,“ segir hann. Fjárfestar geti þurft að bíða í fáeinar vikur eftir því að markaðurinn taki aftur við sér.
Shanghai vísitalan lækkaði um 12% í seinustu viku og hefur nú fallið um 30% frá því um miðjan júnímánuð.
Áhrifanna gætti víðar, en Dow Jones hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 6% í liðinni viku og breska vísitalan FTSE 100 um 5%. Hefur sú síðarnefnda ekki lækkað eins mikið á einni viku í átta mánuði.
Fyrr í mánuðinum felldi Seðlabanki Kína gengi kínverska gjaldmiðilsins, júansins, í viðleitni sinni við að auka útflutning frá landinu.
Fjárfestar í Evrópu óttast að ódýrara júan þýði að evrópskar útflutningsgreinar verði minna samkeppnishæfar.