Mjölnir vill flytja í Keiluhöllina

Jón Viðar, stjórnandi og formaður Mjölnis og Haraldur Dean Nelson, …
Jón Viðar, stjórnandi og formaður Mjölnis og Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri félagsins. Ljósmynd/Mjölnir

Íþróttafélagið Mjölnir þarf að skipta um húsnæði á næstunni og hefur skoðað nokkra möguleika. Félagið hefur vaxið hratt á liðnum árum og þarf nokkuð stórt rými en t.d. er fyrrum starfsstöð Boot Camp í Elliðaárdal líklega of lítil fyrir starfsemina.

Mjölnir hefur verið í húsnæði gamla Loftkastalans að Seljavegi 2 síðan árið 2011. Nú eru eigendur hússins hins vegar að fara gera á því breytingar og langtímaleigusamningur stendur ekki til boða. Haraldur Dean Nelson, framkvæmdarstjóri Mjölnis, segir félagið hafa skoðað nokkra kosti en ekkert er fast í hendi.

Leigusamningur Mjölnis gildir þó eitthvað áfram og líklega verður samið um endalok hans þegar Mjölnir finnur annað húsnæði sem félagið hefur efni á eða getur leigt. „Allar ábendingar eru vel þegnar,“ segir Haraldur léttur í bragði. 

Þurfa að stækka við sig

Að sögn Haraldar væri langbest ef félagið gæti flutt í september eða janúar, við upphaf haust- eða vorannar. Svo gæti farið að beðið verði með flutningana fram í september á næsta ári þannig að hægt verði að nýta sumarið í undirbúning.

Húsnæðið á Seljabraut er um 1.600 fermetrar en Haraldur segir þörf á a.m.k. 2.000 fermetrum. Best væri ef húsnæðið væri tæpir 2.500 fermetrar. Samhliða auknum vinsældum ýmissa bardagaíþrótta hefur vöxturinn hjá Mjölni verið mikill á síðustu árum. Til dæmis má nefna að um 300 manns voru skráðir í félagið þegar Seljabrautin var tekin í notkun árið 2011. Í dag eru iðkendur um 1.200 talsins. „Við komum alveg fleirum í suma tíma en það er fullt á nánast hvert einasta byrjendanámskeið,“ segir Haraldur.

Vilja vera í miðbænum

Þá eru húsnæðisleitinni settar enn frekari skorður. „Við erum aðeins búin að marka okkur sess í miðbænum,“ segir Haraldur og bætir að félagsmenn vilji ekki færa starfsemina of langt frá bænum.

Ljóst er því að möguleikarnir teljast nokkuð takmarkaðir.

Það húsnæði sem Mjölnir hefur einna mestan áhuga á er Keiluhöllin í Öskjuhlíð en allri keilustarfsemi þar var hætt í vor. Haraldur segir félagið hafa rætt við eiganda en ítrekar að það hafi einungis verið umleitanir þar sem þeir fengu m.a. að skoða húsnæðið. „Þetta er æðislegt útivistarsvæði. Þarna væri hægt að gera spennandi hluti, glæða svæðið lífi og þjónusta nýja hverfið,“ segir hann. 

Mjölnir hefur hins vegar ekki efni á að kaupa húsnæðið og því gæti niðurstaðan mögulega orðið orðið sú að leigja það af öðrum kaupanda.

Félagið hefur þá einnig skoðað aðra möguleika, líkt og gömlu Bíóborgina, eða Austurbæjarbíó, á Snorrabraut og fyrrum húsnæði Boot Camp í Elliðaárdal sem nýlega varð laust. Haraldur segir Elliðaárdalinn hins vegar varla henta þar sem húsnæðið sé í fyrsta lagi of lítið og í öðru lagi sé það of langt frá miðbænum.

Feðgarnir Gunnar Nelson og Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis.
Feðgarnir Gunnar Nelson og Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Mjölnir hefur mikinn áhuga á húsnæði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð.
Mjölnir hefur mikinn áhuga á húsnæði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Mjölnir hefur einnig skoðað Bíóborgina.
Mjölnir hefur einnig skoðað Bíóborgina. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK