Gjaldþrotaskiptum hjá Sigurði Einarssyni, fyrrum stjórnarformanni Kaupþings, var lokið á dögunum og námu kröfurnar alls rúmum 254 milljörðum króna.
Þetta er langstærsta gjaldþrot einstaklings á Íslandi.
Í Lögbirtingarblaðinu í dag kemur fram að skiptum hafi verið lokið hinn 6. janúar sl. Um 38 milljónir króna fengust greiddar upp í samþykktar veðkröfur, eða alls 4,3 prósent. Ekkert fékkst hins vegar greitt upp í almennar kröfur.
Sigurður var úrskurðaður gjaldþrota hinn 23. september sl. Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda LEX, var skiptastjóri búsins.
Stærstu kröfuhafar voru Chesterfield United, Deutsche Bank, Murray Holdings og Arion banki.
Sigurður var í sumar dæmdur í eins árs fangelsi í „stóra markaðsmisnotkunarmálinu“ og hafði áður verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Al Thani-málinu.
Í viðtali við sænska dagblaðið Affärs världen árið 2013 sagðist Sigurður vera atvinnulaus og auralaus. Þá sagðist hann hafa selt húsið sem hann keypti í vesturhluta London með láni frá Kaupþingi, nokkrum mánuðum áður en bankinn fór á hliðina, og leigja með fjölskyldu sinni íbúð í norðurhluta borgarinnar. Sigurður sagði fjölskylduna lifa á sparnaði eiginkonunnar.
Sigurður hóf afplánun á Kvíabryggju í vor.