Á Adam hotel við Skólavörðustíg 42 eru gestir hvattir til þess að drekka ekki vatn úr krananum. Þeim er bent á að drekka frekar sérmerkt flöskuvatn.
Í flöskunni er einn lítri af vatni en á verðlistanum kemur fram að tveir lítrar kosta fjögur hundruð krónur.
Myndir af flöskunni voru birtar í hópnum „Bakland ferðaþjónustunnar“ á Facebook þar sem spurt var hvort þetta væri almenn venja á hótelum í Reykjavík eða hvort eitthvað væri að vatninu á Skólavörðuholti.
Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hafa svarað þeirri spurningu á Facebook og segja öll eitt hundrað sýnin sem tekin voru til rannsókna úr vatnsveitu þeirra í Reykjavík á síðasta ári hafa verið pottþétt. Því sé engin ástæða til að vara við kranavatninu nema eitthvað sé bilað innanhúss.
Ekki náðist í eiganda Adam hotel við vinnslu fréttarinnar.