Vildu ekki tapa meiri peningum

Steingrímur J. Sigfússon sat fyrir svörum um SpKef í morgun.
Steingrímur J. Sigfússon sat fyrir svörum um SpKef í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við getum flest orðið sammála um að betra hefði verið að standa öðruvísi að ýmsu, eins og að horfast í augu við vanda Sparisjóðs Keflavíkur, ef mönnum hefði verið hann ljós,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í morgun.

Fjallað var um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna á fundi nefndarinnar í morgun. Málefni Sparisjóðs Keflavíkur, sem síðar varð SpKef var umfjöllunarefnið í dag. Sparisjóðurinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu vorið 2010 og var honum breytt í SpKef, sem var síðan tekinn yfir af Landsbankanum árið 2011. Gjaldþrot SpKef kostaði almenning um 25 milljarða króna.

Fulltrúar Seðlabankans komu fyrir nefndina í morgun og staðfestu að ákvörðunin um að halda lífi í sjóðnum hefði verið pólitísk, líkt og fram kemur í skýrslunni. Þá sögðu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins að ákvörðunin um að stofna SpKef hefði verið í höndum fjármálaráðuneytisins.

Steingrímur var fjármálaráðherra frá 2009 til 2011.

Útlánasafnið vandamálið

„Menn höfðu þær upplýsingar sem þeir höfðu á þessum tíma og byggðu þær á mötum gerð voru á þeim tíma. Mat manna haustið 2008 og á vormánuðum 2009 var að það vantaði eitthvað upp á að hann myndi ná eiginfjárkröfum,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði það vissulega ekki hafa verið vilja ríkisins að tapa meiri peningum.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist getað skilið vilja til að viðhalda sparisjóðskerfinu. Hins vegar skildi hann ekki hvers vegna SpKef var leyft að lifa í 11 mánuði áður en sjóðurinn fór á hausinn.

Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði að ný innlán, með ríkisábyrgð, eftir haustið 2008 hefðu ekki búið til mikið viðbótartjón fyrir ríkissjóð.

Það sem lenti á ríkinu hafi verið munur á eignum og skuldum og var það slæm samsetning eignasafnsins, sem SpKef erfði frá Sparisjóði Keflavíkur, sem skipti mestu máli. Eignasafn sem varð til á bóluárunum fyrir hrun.

„Hafi þessi upphæð sem á endanum féll á ríkið hækkað á árunum 2009 til 2011 má fyrst og fremst rekja það til þess að einhver rekstrarkostnaður varð til á þessum árum. En það er sáralítill hluti af þessum milljörðum sem við erum að tala um. Tjónið er fyrst og fremst vegna útlána hjá sparisjóðnum á bóluárunum,“ sagði Gylfi.

Ríkur vilji til að verja kerfið

Steingrímur sagði sparisjóðinn hafa farið í sama ferli og bankarnir gerðu samkvæmt neyðarlögum. Valin hafi verið sama leið og áður, að stofna nýja fjármálastofnun á grunni þeirrar gömlu. Þegar uppi er staðið telur hann það sáralitlu haf breytt hvort SpKef var hafður í formi sparisjóðs eða hlutafélags, líkt og gert var með Byr.

„Það er alveg ljóst að staðan var erfið. En það er líka ljóst að ríkur vilji var til að reyna verja þetta, ekki bara hjá stjórnvöldum heldur einnig þverpólitískur vilji, ásamt því sem ríkur vilji var heimafyrir, “ sagði Steingrímur. Ef viljinn á heimasvæði sparisjóðsins til að halda honum gangandi hefði ekki verið svo mikill hefði sjóðurinn ekki getað starfað eins lengi og raun bar vitni, sagði Steingrímur.

Þá hefði verið ástæða til að ætla að kröfuhafar myndu vilja koma að fjárhagslegri endurreisn.

Móðurstöð sparisjóðskerfisins

Steingrímur sagði að stjórnvöld hefðu aldrei reynt með annarlegum hætti að hafa áhrif á Fjármálaeftirlitið eða Seðlabankann í þessu ferli. 

Bundnar hefðu verið vonir við að SpKef yrði nokkurs konar móðurstöð fyrir það sem eftir var að sparisjóðskerfinu.

Steingrímur sagði margt liggja fyrir í dag sem gott hefði verið að vita á þessum tíma og vísaði til þess að lán hefðu verið veitt án ábyrgða og að lánanefnd hefði ekki verið starfandi.

Þetta hefur verið staðfest í dag og hefur Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, verið ákærður fyrir.

Frétt mbl.is: Ákærður fyrir 700 milljóna króna umboðssvik

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði hvort óskhyggja hefði ráðið för í öllu ferlinu þar sem ríkur vilji var til að viðhalda sparisjóðskerfinu.

„Það er auðvitað hægt að fabúlera að ef tónninn á Alþingi hefði verið annar og enginn hefði talað máli sparisjóðanna hefðu aðstæður verið aðrar,“ sagði Steingrímur.

Þá benti hann á að Fjármálaeftirlitið væri ýmist gagnrýnt fyrir að gefa mönnum of mikið ráðrúm í erfiðleikum, líkt og í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur, eða of lítið, líkt og í tilviki Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Einnig hafi það verið sjónarmið að nóg væri hrunið. „Þetta gilti gagnvart atvinnulífinu, fjármálafyrirtækum og heimilum,“ sagði hann og vísaði til þess að andrúmsloftið hefði þá kannski frekar orðið til þess að auka svigrúm sparisjóðsins.

„Ég held að allir hafi verið að reyna gera sitt allra besta á þessum tíma,“ sagði Steingrímur að lokum.

Frétt mbl.is: Af hverju var hengingarólin lengd?

Frétt mbl.is: End­ur­reisn SpKef póli­tísk ákvörðun

Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir eignasafn sjóðsins hafa …
Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir eignasafn sjóðsins hafa verið vandamálið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Landsbankinn tók SpKef yfir árið 2011.
Landsbankinn tók SpKef yfir árið 2011. mbl.is/Víkurfréttir
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri SpKef, hefur verið ákærður fyrir umboðssvik …
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri SpKef, hefur verið ákærður fyrir umboðssvik í störfum sínum fyrir sparisjóðinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK