Óvissa um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu hefur víða mikil áhrif. Markaðir og pundið hoppa upp og niður og ljóst er að ástandið veldur mörgum áhyggjum. Einn markaður blómstrar hins vegar í skjóli óvissunnar: veðmálabransinn.
Í samtali við New York Times segir Mike Smithson, stofnandi PoliticalBetting.com, að álagið sé gífurlegt. Segir hann að um stærsta pólitíska veðmál allra tíma sé að ræða. Ekki einungis í Bretlandi heldur í heiminum öllum.
Að sögn Smithson voru bara á þriðjudag og miðvikudag lagðar um þrjár milljónir punda undir á atkvæðagreiðsluna sem fer fram í dag en það jafngildir um hálfum milljarði íslenskra króna. Mestmegnis hefur þetta verið í gegnum netið.
Í veðmálaheiminum eru líkurnar meiri á áframhaldandi veru Breta innan ESB og er því eftir miklu að slægjast verði ákveðið að yfirgefa sambandið. Fyrir hvert pund sem lagt er undir á Brexit má græða þrjú pund að sögn NYT. Ef Íslendingur myndi leggja eitt pund undir á Brexit gæti hann leyst út 720 krónur fari atkvæðagreiðslan honum í hag. Það jafngildir 540 króna gróða. Með hærri upphæðum verður gróðinn eðli máls samkvæmt miklu meiri.
Í samtali við NYT segir William Hill, sem er eitt þekktasta nafnið í breska veðmálabransanum, að heildarveðmál á atkvæðagreiðsluna muni líklega hljóða upp á 20 milljónir punda, eða 3,6 milljarða króna.
Til samanburðar má nefna að 3,25 milljónir punda voru lagðar undir á þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Skotlands.